Sungið í tilefni af Degi leikskólans - Myndir og vídeó

Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur í tólfta sinn í gær en sjötta febrúar er gert hátt undir höfði í leikskólasögu þjóðarinnar þar sem frumkvöðlar leikskólanna stofnuðu fyrstu samtök sín á þessum degi árið 1950. Orðsporið, sem veitt var í sjöunda sinn, kom í hlut Seltjarnarnesbæjar en verðlaunin voru fyrst veitt árið árið 2013. Hersteinn Snorri, leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi, hlaut önnur verðlaun í ritlistarsamkeppninni fyrir ljóðið Skipstjórinn.

Í leikskólanum Brákarborg við Brákarsund var efnt til hátíðarhalda þar sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnarness, Orðsporið 2019. Á vef Kennarasambandsins kemur fram að Seltjarnarnesbær hafi hlotið orðsporsverðlaunin fyrir að vera það sveitarfélag sem þykir hafa skarað fram úr við að bæta starfsaðstæður og starfskjör leikskólakennara umfram kjarasamning.

Þá voru einnig kynnt úrslit í ritlistarsamkeppninni „Að yrkja á íslensku“ sem efnt var til í tilefni dagsins. Fyrstu verðlaun hlaut Bjarkey Sigurðardóttir, leikskólanum Jötunheimum á Selfossi fyrir ljóðið Sumar, önnur verðlaun hlaut Hersteinn Snorri, leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi, fyrir ljóðið Skipstjórinn og þriðju verðlaun fengu Maceij, Indiana Alba, Katla Sól, Helga Katrín, Arnlaug Fanney í leikskólanum Akraseli á Akranesi fyrir ljóðið Ævintýri.

Á Sauðárkróki röltu leikskólabörnin, ásamt kennurum sínum, í Skagfirðingabúð og sungu fyrir gesti og gangandi. Meðfylgjandi myndir eru teknar við það tækifæri.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir