„Þetta eru ævintýradagarnir okkar“
Þessa vikuna eru svokallaðir Vordagar í Blönduskóla en það eru síðustu dagar skólaársins. Þá er farið í vettvangsferðir og nemendurnir verja tíma sínum að mestu utandyra.
„Á Vordögum vinnum við mikið úti, ýmis útiverkefni. Þetta eru svona ævintýradagarnir okkar. Það sem mér finnst alltaf sorglegt er að það biðja alltof margir foreldrar um leyfi fyrir börnin sín og spyrja jafnvel hvort þau séu nokkuð að læra þessa daga. En þau eru náttúrulega að læra mjög mikið, það er hægt að læra svo margt þótt það standi ekki í bók,“ segir Berglind Björnsdóttir aðstoðarskólastjóri í nýjasta tölublaði Feykis.
Það var margt um að vera þann dag sem Feykir heimsótti Blönduskóla, sl. mánudag; 10. bekkur lagði af stað í fjögurra daga útskriftarferð um Suðurlandið og til Vestmannaeyja, einn hópur skoðaði sig um í Húnaþingi vestra, nemendur í 8. og 9. bekk fóru fram í Dalsmynni í Svínadal og yngsti hópurinn í fjöruferð.
„Það er alltaf gleði og gaman, þau umgangast skólafélagana sína með allt öðrum hætti en aðra daga, mér finnst þetta vera mjög mikilvægir skóladagar líka,“ sagði Berglind.
Nánari umfjöllun um Blönduskóla og þann góða anda sem ríkir í skólanum má sjá Feyki sem kom út í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.