Vagga körfuboltans á Króknum rifin – hvert fóru silfurskotturnar?

Boltadagur hjá 6 ára bekk Barnaskóla Sauðárkróks - 20. maí 1988. Þarna má m.a. sjá Björn skólastjóra Björnsson. MYND FRÁ HSK
Boltadagur hjá 6 ára bekk Barnaskóla Sauðárkróks - 20. maí 1988. Þarna má m.a. sjá Björn skólastjóra Björnsson. MYND FRÁ HSK

Nú þegar leikfimisalurinn gamli við Barnaskólann á Freyjugötu á Sauðárkróki, oft kallaður Litli salurinn, hefur verið rifinn hefur skapast ágæt umræða um salinn á samfélagsmiðlum. Ljóst er að hann vekur upp misjafnar minningar hjá þeim sem þar stunduðu leikfimi og íþróttir í gegnum tíðina. Sumir eru leiðir yfir því að þessi vagga körfuboltans á Króknum hafi verið rifin án þess að nokkur hafi hreyft mótbárum og aðrir nánast fegnir að þessi salur, sem lifir í martröðum þeirra enn í dag, sé horfinn fyrir fullt og allt.

Á Facebook-síðunni Skín við sólu, sem fjölmargir Króksarar og Skagfirðingar heimsækja reglulega, hefur fólk minnst salarins en þar hafa verið birtar myndir af niðurrifinu. „Svona er lífið, margar minningar úr leikfimisalnum,“ skrifar Siggi Nonna í Nesi. Kalli Jóns segist hafa verið til í að eignast parketbút úr húsinu á meðan Rakel Rögnvalds vonast til að fundið hafi verið nýtt hlutverk fyrir rimlana góðu. Óli Jóhanns segist hafa átt nokkur sporin í leikfimisalnum, „...bæði í skóla og æfingum á kvöldin í körfu og fótbolta. Það er samt ekkert sárt að sjá hann hverfa, þegar hann var kominn í það ástand sem hann var í.“ Halldór Þormari finnst niðurrifið hálf sjokkerandi þótt tímans tönn hafi fyrir löngu unnið sitt starf.

Unnur Magnúsdóttir í Ástralíu sá á myndum að „fjárans kaðlarnir“ hafi enn verið á sínum stað. „Ég átti í erfiðleikum með að klifra þá,“ segir Unnur og er sannarlega ekki ein um að hugsa með hryllingi til kaðlaklifursins. Það var ýmislegt stundað í salnum sem ekki var allra. Sumir náðu aldrei að temja hestinn stóra eða að hoppa yfir kistuna, stökkva í hástökki án atrennu, aðrir fíluðu sig ekki í kappleikjum á borð við körfu eða fótbolta eða að láta Tarzan krækja í sig í síðasta tíma vetrarins. Sumir fóru í leikfimi með kvíðahnút í maga og biðu eftir skömmum og niðurlægingu.

En aðrir áttu sínar bestu stundir í leikfimisalnum. „Margar ljúfar stundir þarna,“ segir Styrmir Króksari Gíslason og Ágúst Ingi Ágústsson bendir á að þarna hafi margt körfuknattleiksfólk lært grunnatriði leiksins, „t.d. að nota alltaf spjaldið í layups,“ bætir Sveinn Guðmunds við. Margeir Friðriks segir Svenna Siffa hafa sagt sér að hann og félagar hans hafi leikið landsleik í körfubolta í þessu húsi á sjöunda áratugnum – sem Margeiri finnst magnað. Einhver rifjar upp frúarleikfimi hjá Eddu Baldurs og einn segir að í minningunni hafi sturturnar verið ágætar.

Alli var 16.350 klukkutíma í Litla salnum

Björn Jóhann, Moggamaður, veltir fyrir sér hvað hafi orðið um silfurskotturnar en hann segir líka: „Skrítin tilfinning að sjá íþróttasalinn í Barnaskólanum jafnaðan við jörðu, nánast á einu augabragði. Mörg eigum við „gamlir“ Króksarar minningar úr þessum sal, misfagrar eins og gengur. Salurinn geymir sigra og sorgir, blóð, svita og tár. Þarna var m.a. grunnur lagður að fyrsta Íslandsmeistaratitli Tindastóls í körfubolta, gott ef það var ekki í 4. flokki karla 1975 og svo aftur í 3. flokki árið eftir. Skrifað án ábyrgðar. Og hver man ekki eftir silfurskottunum sem flúðu í felur þegar lausu gólfflísunum í klefunum var lyft? Hver man ekki eftir Ingu Vigfúsar að reka á eftir okkur úr sturtunni, strákum sem stelpum? Stútfullur salurinn með áhorfendur hangandi í rimlunum og þétt staðið við hliðarlínurnar, og engin loftræsting. Krítartaflan þar sem tölfræði leikja var krotuð á...“

Molduxarnir æfðu stíft í Litla salnum, félagið meira að segja stofnað þar fyrir 40 árum, og það var við hæfi að Molduxar tækju síðustu æfinguna í húsinu áður en það var rifið og héldu smá teiti til að kveðja salinn með virktum. Alli Munda flutti þar smá tölu og sagðist hafa eytt svo mörgum stundum í Litla salnum að hann hafi verið kallaður Salli á tímabili. Honum reiknast til að hann hafi eytt þarna um 16.350 klukkustundum, eða u.þ.b. 1,9 ári, og telur hann þá saman tímann sem nemandi, sem leikfimikennari, körfuboltaæfingar og þjálfun með Tindastóli, Molduxum, Dvergum, Trillum og skólaliðum FNV auk leikjanámskeiða og íþróttaskóla fyrir 3-5 ára börn. Alli skoraði mest 115 stig í einum leik í Litla salnum en það var á grunnskólamóti á áttunda áratugnum. Alli hælir parketinu og segir það hafa farið vel með skrokka í körfuboltasprikli. „Litli salurinn hafði einhvern sjarma, manni leið alltaf vel þar, bæði í leik og starfi,“ segir kappinn með söknuði.

„Skrýtin tilfinning að sjá gamla barnaskólasalinn rifinn.,“ segir Ágúst Guðmundsson, bróðir Alla og fyrrum forseti Molduxa, og heldur áfram. „Margir eiga skemmtilegar minningar tengdar þessu húsi, jafnvel frá dögum Ásgríms skreðara sem var þarna húsvörður. Eins og Margeir Friðriksson hefur bent á, var það sennilega árið 1969 sem körfuknattleikslið Tindastóls keppti við unglingalandslið Dana í Litla salnum. En nú er sögu þessa merkilega húss lokið.“

- - - - 
Fyrstu tvær myndirnar eru fengnar hjá Héraðsskjalasafni Skagfirðina, myndin af sprækum Fásurum er fengin frá Birni Jóhanni og litmyndirnar frá Palla Friðriks og Gústa Munda. Ef einhverjir vilja bæta í safnið þá má senda myndir á oli@feykir.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir