Vikulangar siglingabúðir á Sauðárkróki - Myndir

Siglingaklúbburinn Drangey á Sauðárkróki var stofnaður fyrir 5 árum  en síðan hefur starfsemin undið heilmikið upp á sig. Áhersla er lögð á að gera starfið aðgengilegt fyrir sem flesta. Partur af því er að hvetja heimafólk til að fylgjast með siglingakeppni sem hefst um hálfellefu í fyrramálið.

Undanfarna viku hafa siglingabúðir á vegnum Siglingasambands Íslands staðið yfir á Sauðárkróki. Búðirnar hafa til þessa verið haldnar vítt og breytt um landið einu sinni á ári, en Siglingaklúbburinn Drangey stendur nú að þeim í fyrsta sinn, að sögn Ingvars Páls Ingvarssonar sem er formaður klúbbsins. Um 19 ungmenni á aldrinum 10-20 ára taka þátt, auk þjálfara.

Markmið siglingabúðanna er að ungmennin komi saman og þau og þjálfararnir hittist og kynnist, æfi sig og læri að sigla. Spænskur þjálfari er meðal þátttakenda að þessu sinni og eru íslensku þjálfararnir að læra af honum, jafnhliða því að leiðbeina ungmennunum.

Að sögn Ingvars Páls og annarra stjórnarmanna sem blaðamaður Feykis hitti í aðstöðuhúsi klúbbsins í gær hafa búðirnar gengið vel fyrir sig. Fyrirhuguð dagskrá tafðist þó um einn dag vegna veður sl. laugardag en þátttakendur létu það ekki á sig fá og höfðu nóg við að vera, enda felst lærdómurinn m.a. í því að spjalla við aðra og læra af þeim.

Ingvar Páll segir að klúbburinn hafi ekki eingöngu verið stofnaður með siglingar í huga heldur ekki síður til að opna og veita börnum aðgang að ströndinni og hafinu með öruggum hætti. Sjórinn hefur mikið aðdráttarafl og sumir kjósa bara að synda og busla.

Mikil áhersla er lögð á að gera starfsemi klúbbsins aðgengilega fyrir sem flesta og partur af þeirri viðleitni var þegar starfsfólki Iðjunnar var boðið í siglingu um daginn og vakti það mikla lukku. Þá hefur klúbburinn boðið upp á námskeið í Sumar-TÍM sem 30-45 krakkar á ári hafa sótt.

Þá leggur Ingvar áherslu á að heilmikið megi læra af þessu návígi við náttúruna, með t.d. útikennslu. Þannig megi fræðast um náttúruöfl eins og flóð og fjöru og vötn og höf sem séu 70% af öllu yfirborði jarðar. Ferðafólk leggur líka gjarnan leið sína að sjónum og hefur áhuga á lífinu við höfnina.

Siglingaklúbburinn Drangey hefur komið sér upp skemmtilegri aðstöðu við smábátahöfnina á Sauðárkróki. Þar er aðstöðuhús sem búið er að færa fjórum sinnum til á svæðinu en er nú vonandi komið á varanlegan stað og búið að tengja rafmagn og hita. Þá er búið að gera umhverfið snyrtilegt, með sætum úr grjóti, eldstæði og útisturtu. Ingvar segir það drauminn að koma upp heitum potti þannig að t.d. sjósundsfólk geti yljað sér um leið og komið er úr sjónum.

Úlfur H. Hróbjartsson, formaður Siglingasambandsins er meðal þjálfara í búðunum og segir hann þess íþrótt ákaflega heillandi, ekki síst vegna þess að þrátt fyrir að hafa siglt frá fimm ára aldri sé hann ennþá að læra eitthvað nýtt.

Krístín S. Einarsdóttir, blaðamaður Feykis, skellti sér í sjóferð með klúbbnum í gær og smellti myndum af æfingu. Myndirnar frá heimsókn Iðjunnar eru teknar af Berglindi Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis, og einnig eru nokkrar aðsendar frá klúbbnum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir