Ævintýrabókin slær í gegn

Frá framklappi á frumsýningu. Mynd: Hrafnhildur Viðarsdóttir.
Frá framklappi á frumsýningu. Mynd: Hrafnhildur Viðarsdóttir.

Þriðja sýning Leikfélags Sauðárkróks á Ævintýrabókinni fer fram í kvöld en óhætt er að segja að áhorfendur hafi skemmt sér vel á fyrri sýningum. Uppselt var á frumsýningu og mikil stemning í salnum og sama má segja í gær. Leikarar og áhorfendur vel stemmdir en fleiri gestir hefðu mátt láta sjá sig. Nú hefur foreldrafélag Árskóla og Ársala á Sauðárkróki ákveðið að niðurgreiða miðaverð fyrir sína félagsmenn sem og foreldrafélag Varmahlíðaskóla. Foreldrar eru hvattir til að nýta sér það.

Í Feyki, sem kemur út í dag, skrifar Hrafnhildur Viðarsdóttir um upplifun sína af frumsýningunni. Þar stendur m.a.:

„Þó að allir hafi staðið sig með sóma þá eru þó alltaf einhverjir sem fanga hug manns. Haukur Skúlason sem úlfurinn í Rauðhettu er náttúrulega bara gangandi meistarastykki og stígur ekki feilspor hér frekar en fyrri daginn. Ingi Sigþór Gunnarsson var í hlutverki stígvélaða kattarins og var einstaklega sannfærandi, skemmtilegur og lifandi á sviðinu. Róbert Smári Gunnarsson var í hlutverki gleymna vinnumannsins og lék hann svo skemmtilega að manni var eiginlega orðið sama um það úr hvaða ævintýri hann var, svo lengi sem hann væri áfram á sviðinu. Prins öskubusku var leikinn af Ásbirni Waage. Þetta er lítið hlutverk og er Ásbjörn ekki lengi á sviðinu sem er algjör synd því þarna er á ferðinni mjög flottur leikari. Hann átti alla athygli um leið og hann steig á sviðið með fagmannlegri og flottri sviðsframkomu sinni, og hélt hann athygli minni þangað til hann gekk út. Óskar Marteinn Helgason og Inga Dóra Ingimarsdóttir léku skógarhöggsmanninn og konu hans, og eru þau án efa kómískasta par sýningarinnar. Óskar Marteinn var frábær og stórfyndinn sem hinn taugaveiklaði og undirgefni eiginmaður og átti Inga Dóra stjörnuleik sem hin stjórnsama húsmóðir. Dvergana sjö finnst mér ég verða að nefna, en þeir voru algjörlega frábærir allir sem einn en var þó þar fremstur í flokki Hlífar Óli Dagsson. Hlífar lék dverginn Kát og stóð hann algjörlega undir nafni og kætti okkur úti í sal í leiðinni.“

Tengdar fréttir: 

Ævintýrabókin á fjalirnar í Bifröst

Ævintýrabókin - Myndband

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir