Árshátíð Húnaskóla tókst með miklum ágætum

Frá árshátíðinni í gær. MYND: VALLI HÚNABYGGÐ
Frá árshátíðinni í gær. MYND: VALLI HÚNABYGGÐ

Húnahornið segir frá því að fyrsta árshátíð Húnaskóla, sameinaðs grunnskóla í Húnabyggð, fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi í gær. Sýnd voru leikritin Latibær og Galdrakarlinn í Oz en þar að auki fór fram söngkeppni í danssal félagsheimilisins og boðið var upp á dýrindis veislukaffi að auki.

Nemendur í 7. bekk sýndu leikritið um Latabæ í leikstjórn Freyju Ólafsdóttur og Jóhönnu Stellu Jóhannsdóttur. Nemendur í 8.-10. bekk sýndu leikritið Galdrakarlinn í Oz í leikstjórn Gunnars Sturlu Hervarssonar.

Eftir leiksýningarnar var haldin söngkeppni og veislukaffi í danssal félagsheimilisins. Þórey Helga sigraði söngkeppnina og verður hún því fulltrúi félagsmiðstöðvarinnar Skjólsins í söngkeppninni NorðurOrg sem haldin verður í næsta mánuði.

„Árshátíðin tókst frábærlega vel og nemendur og gestir fylltu félagsheimilið,“ segir í frétt Húnahornsins en bæta má við að þegar formlegri dagskrá lauk var skellt upp balli fyrir nemendur í 7.-10. bekk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir