Edu gengur til liðs við Gránu Bistró

Edu mættur í eldhúsið á Gránu. MYND: GG
Edu mættur í eldhúsið á Gránu. MYND: GG

Nýverið tók nýr kokkur við keflinu á Gránu Bistró á Sauðárkróki. En Edu frá Frostastöðum hefur nú tekið við eldhúsinu og birti nýjan matseðil á dögunum. Á Gránu er lögð áhersla á gæðahráefni úr héraði og að vera með eitthvað létt, ferskt og spennandi í hádeginu. Edu er skagfirskum matgæðingum vel kunnur en hann hefur m.a. verið á Hótel Varmahlíð, Deplum og Hofsstöðum.

Grána Bistró er notalegur veitingastaður við Aðalgötuna á Sauðárkróki, í gömlu verslunarhúsnæði Kaupfélags Skagfirðinga. Þar má fá gott kaffi, gómsætar kökur og heitan mat í hádeginu. Þá er vinsælt að halda þar ýmsa viðburði, fundi, vinnustofur, tónleika, uppistand, ráðstefnur og svo mætti lengi telja.

Á nýja matseðlinum má finna hinn vinsæla rétt fisk&franskar, matarmiklar grænmetissúpur og í stað vefjanna er nú grilluð súrdeigsbrauð með lambasteik og heimagerðri bernaise eða grilluðum kjúkling og beikoni, svo má finna þar brauð með hummus og litríkt kínóasalat.

Hlakka til að bjóða upp á góðan og fallegan mat

Edu kemur frá Buenis Aires í Argentínu og á matvælaframleiðslufyrirtækið Austan Vatna ásamt konu sinni, Ingu Dóru Þórarinsdóttur, en þau framleiða m.a. chimichurri steikarsósu, Chorizo pylsur og ærborgara svo fátt eitt sé nefnt. Austan Vatna hlaut viðurkenninguna Framúrskarandi verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar frá SSNV árið 2022.

Freyja Rut, framkvæmdastjóri 1238 og Gránu Bistró segist fagna mjög komu Edu til Gránu „Það er frábært að hafa fengið Edu til liðs við okkur, hann hefur mikla reynslu og fullt af nýjum og ferskum hugmyndum. Við hlökkum mikið til að geta boðið Skagfirðingum og gestum þeirra góðan og fallegan mat í þessu notalega andrúmslofti sem Grána er löngu orðin þekkt fyrir, við höfum opið í hádeginu alla virka daga, frá kl. 11-15 og einnig er tekið á móti hópum á kvöldin. Svo höfum við verið með nokkur pop-up sem við munum halda áfram að þróa með haustinu.“

Myndir: Gunnhildur og Grána

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir