„Ég held að geggjun sé vægt til orða tekið“

Íslandsmeistarabolur verður til. MYNDIR AÐSENDAR
Íslandsmeistarabolur verður til. MYNDIR AÐSENDAR

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgst hafa með vegferð Tindastóls í gegnum úrslitakeppnina að það eru flestallir stuðningsmenn liðsins merktir Stólunum í bak og fyrir. Það er Þröstur Magnússon í Myndun á Sauðárkróki sem hefur eytt ófáum klukkutímunum í að framleiða allt milli himins og jarðar svo allir sem vilja geti borið Tindastólsmerkið með stolti. Í lokaviku einvígis Vals og Tindastóls bættist síðan við heilmikil prentun vegna atvinnulífssýningar á Króknum og framleiðsla á sérstökum Íslandsmeistarabolum en salan hefur farið frábærlega af stað.

Feykir sendi nokkrar spurningar á kappann og byrjaði á að spyrja út í Íslandsmeistarabolina. Ætli það sé einhver hreyfing? „Það er búið að panta um 250 boli eins og staðan er núna. Við erum komin með í sölu allar stærðir frá 3 ára og nánast uppúr. Bolurinn er ennþá í forpöntun og við reynum að afgreiða þetta eins fljótt og hægt er en vonandi sýnir fólk okkur þolinmæði, það tekur okkur smá tíma að koma þessu frá okkur.“

Hefurðu sofið eitthvað síðustu vikurnar og kannski misst af leikjum Tindastóls? „Ég hef eitthvað náð að sofa en það hefur verið mismikið, það verður að viðurkennast. Ég reyndi að hafa leikina í gangi í sjónvarpinu á verkstæðinu og fylgjast með eins og hægt var en það er ekki hægt að tala um neitt venjubundið við síðustu vikur, fjölskyldan hefur setið frekar mikið á hakanum.“

Er þetta búin að vera algjör geggjun í verkefnum tengdum Tindastól nú í vor? Ég held að geggjun sé vægt til orðatekið. Þetta er búið að vera alveg ótrúlegt og ég held að svona mikil sala á íþróttavarningi eigi sér enga hliðstæðu á íslandi, þó ég þori ekki að fullyrða það. En þetta hafa verið bolir í nokkrum útfærslum, hettupeysur og derhúfur, ég hef nú ekki náð að halda utan um fjölda af tengundum af derhúfum en skilst að þær gætu verið 14 og vorum líka með bakpoka.“

Atvinnulífssýningin var í Síkinu um helgina og þar mátti sja heilu veggjaraðirnar útprentaðar, hvað reiknarðu með að hafa prentað út marga metra og plastað fyrir sýninguna? „Þetta voru um 200 fermetrar af prentun sem ég prentaði fyrir þessa sýningu með okkar bás meðtöldum.“

Ertu einn að vasast í þessu? „Ég er eini fasti starfsmaður Myndunar en ég hef sem betur fer gott fólk í kringum mig, hef fengið góða hjálp frá konunni, mömmu og vinum„“ segir Þröstur sem stefnir á sumarfrí í byrjun júlí.

Hægt er að panta bolinn fallega og ýmislegt fleira í Netverslun Myndunar www.myndun.is en Þröstur hannaði Íslandsmeistarabolinn sjálfur og segist vera með fleiri í pokahorninu eftir aðra hönnuði sem gætu litið dagsins ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir