„Ég mun aldrei aftur kvarta yfir því að þurfa að fara í tveggja tíma ferð í útileik“

Michael Ford hefur átt fína leiki í vörn Tindastóls í sumar. MYNDIR: ÓAB
Michael Ford hefur átt fína leiki í vörn Tindastóls í sumar. MYNDIR: ÓAB

Fjórir breskir leikmenn eru á mála hjá karlaliði Tindastóls sem tekur þátt í 3. deildinni í sumar. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Michael Ford sem hefur átt fína leiki í vörninni og skoraði sitt fyrsta mark skömmu fyrir Covid-truflun 2. Hann segist alla jafna spila á miðjunni en hefur í gegnum stuttan feril einnig leyst flestar stöður í vörn.

Michael er 21 árs og kemur frá Peterborough á Englandi sem er rétt rúmlega tveggja tíma akstur beint norður af London. Foreldrar hans eru Brendan og Clare en Michael á tvo eldri bræður, Andrew og Jack. Hann hefur nýlokið mastersgráðu í styrktar- og þolþjálfun og starfar við sitt fag heima með háskóla og framhaldsskólaliðum. „Áður en ég kom hingað var ég bara að sinna starfinu við háskólann og að spila ps4 – vegna COVID. Svo frétti ég af þessu tækifæri í gegnum skólastjóra akademíunnar við háskólann minn. Ég átti viðtal við Jamie og einni og hálfri viku seinna var ég í kominn upp í flugvél á leiðinni til Íslands,“ segir Michael.

Hvernig var tíminn í sóttkví eftir komuna til landsins? „Strákarnir voru frábærir meðan á sóttkví stóð, allt sem okkur vantaði, hvort sem það var matur eða WiFi, var reddað fyrir okkur. Sérstaklega þakkir til Jamie og Ísaks, þeir gerðu allt sem þeir gátu til að auðvelda okkur lífið. Þessa daga var lífið ansi svipað og það hafði verið heima á Englandi. Það góða var að ég hafði Luke og Vic til að stytta mér stundirnar og spila ps4 með. Eina vandamálið var að tölvuleikjadrengurinn (Luke) er of góður þannig að hann gjörsigraði okkur ... oftast.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart hér á Íslandi? „Fyrir utan að Luke hafi haldið að hann gæti verið úlpulaus á Íslandi þá er það vegalengdin sem þú þarft að ferðast í útileiki. Ég mun aldrei aftur kvarta yfir því að þurfa að fara í tveggja tíma ferð í útileik.“

Hvernig er að vera hluti af Tindastólsliðinu? „Ég elska það. Strákarnir munu sennilega segja annað en mér finnst ég passa mjög vel í hópinn. Það er frábært hversu móttækilegir þeir hafa allir verið fyrir þrekæfingunum og þeim breytingum sem ég hef hrint í framkvæmd, þeir spyrja spurninga og vilja bæta sig á allan hátt. Sem er snilld. Ég hef aldrei upplifað að þjálfa hóp þar sem allir eru jákvæðir fyrir því að læra og leggja meira á sig – sem hljómar heimskulega því allir ættu að vilja bæta sig en það er ekki alltaf raunin.“

Hver er uppáhalds liðsfélaginn? „Mér semur mjög vel við alla strákana, þeir eru allir frábærir. Ég vil þó nefna Jónas, hann er goðsögn!“

Hvaða væntingar gerðirðu til tímans á Íslandi? „Ég vonaðist til að bæta mig sem  þjálfari, leikmaður og manneskja um leið og ég upplifði eitthvað sem ég hefði annars aldrei haft tækifæri til að upplifa.“

Hvaða leikmaður hefur verið þín fyrirmynd? „Ég er Spurs [Tottenham] aðdáandi og þeir áttu ekki marga miðjumenn sem voru sérstaklega hvetjandi þegar ég var að alast upp. Síðustu árin elskaði ég þó hvernig Moussa Dembele spilaði, hann var mjög vanmetinn leikmaður.“

Hvað gerir þú annað hér á Króknum en spila fótbolta? „Ég vinn hjá Dodda málara þannig að á dæmigerðum degi erum við að mála Fisk Seafood, þaðan fer ég svo á æfingu, suma daga sé ég um þrekæfingar fyrir meistaraflokkinn og tek líka þrekæfingar með nokkrum strákum úr yngri flokkunum. Svo fer ég heim að loknum æfingum en ég, Vic og Luke skiptumst á að elda. Ég held að það sé óhætt að segja að ég og Vic séum bestu kokkarnir af okkur þremur. Luke reynir og er að bæta sig en hann er ekki á okkar stigi.“

Hvað hefur verið erfiðast við að vera hér? „Erfiðasti hluti dvalar minnar hingað til er líklega að vera fjarri kærustunni minni og fjölskyldunni heima.“

Að mati Michael er bakkalsið í Bakaríinu besta snakkið en lag sumarsins er Í kvöld er gigg með Ingó Veðurguð. Honum finnst óskiljanlegt að Íslendingar troði lakkrís í súkkulaðið: „Það er alls ekki gott!“ 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir