„Eins og mörg tonn af gleði hafi verið leyst úr læðingi“

„Kári Mar og afkomendur – áratuga reynsla,“ segir Axel þegar hann er spurður um hvaða texta hann vilji hafa undir myndinni. AÐSEND MYND
„Kári Mar og afkomendur – áratuga reynsla,“ segir Axel þegar hann er spurður um hvaða texta hann vilji hafa undir myndinni. AÐSEND MYND

Axel Kárason hefur marga fjöruna sopið í vegferð Tindastóls að titlinum fallega. Í gærkvöldi sigruðu Tindastólsmenn fyrrum meistara Vals í hreinum úrslitaleik í Reykjavík og eru því Íslandsmeistarar í fyrsta skipti. Í morgun vaknaði Axel því í fyrsta sinn sem Íslandsmeistari. „Þetta er svakalega góð tilfinning, dásamlegt að Tindastóll sé kominn í þennan hóp,“ segir kappinn í spjalli við Feyki.

Geturðu lýst gærkvöldinu? „Eftir að lokaflautið gall var hrein sprenging af tilfinningum,“ segir Axel þegar hann er spurður út í gærkvöldið. „Ég hef aldrei kynnst jafn mikilli orku eins og átti sér stað í fögnuðinum eftir að flautan gall. Eins og mörg tonn af gleði hafi verið leyst úr læðingi, sem náði líklega hápunkti þegar við feðgar föðmuðumst með tárin í augunum. Það er eitthvað merkilegt í gangi þegar tveir lífsreyndir menn haga sér svoleiðis.“

Hvað er eftirminnilegast úr leiknum? „Tíminn sem líður frá því að vítaskot númer tvö hjá Keyshawn fer framan á hringinn, þangað til það dettur svo ofan í. Af eðlislægri nægjusemi bað ég ekki um meira en að hann myndi setja tvö af þremur vítum svo við færum í framlengingu. Held að öll líkamsstarfsemi hafi einfaldlega stoppað á meðan boltinn dansaði á hringnum.“

Einhver skilaboð til stuðningsmanna? „Til hamingju Tindastólsfólk nær og fjær. Við gerðum þetta saman, á okkar hátt, með gleðina í fyrirrúmi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir