Gunnar og Stefanía hafa látið af störfum eftir langan starfsferil

Guðjón Guðjónsson skipstjóri á Arnari HU1 færði Gunnari þakklætisvott. Á myndinni til hægri er Stefaníu við veisluborðið. MYNDIR AF VEF FISK SEAFOOD
Guðjón Guðjónsson skipstjóri á Arnari HU1 færði Gunnari þakklætisvott. Á myndinni til hægri er Stefaníu við veisluborðið. MYNDIR AF VEF FISK SEAFOOD

Á vef FISK Seafood má sjá að tveir ötulir starfsmenn gegnum tíðina hafa nú sest í helgan stein og voru báðir kvaddir með virktum. Um er að ræða Gunnar Reynisson, kokk á Arnari HU1 sem var aðeins 15 ára þegar hann byrjaði til sjós, og síðan Stefaníu Kristjánsdóttur sem á að baki langan starfsferil hjá landvinnslu FISK.

Í fréttinni um starfslok Gunnars segir að hann sé nú sestur í helgan stein eftir áratuga starf á sjónum. „Gunnar byrjaði ungur til sjós, aðeins 15 ára gamall var hann komin á trillu með föður sínum. Þaðan fór hann á Höfrung III. Eins og vill verða þá giftist Gunnar norður í land og hóf störf hjá Skagstrendingi árið 1978, og hefur frá árinu 1983 verið kokkur á sjó, fyrst á Örvari og síðar Arnari HU1.

Að sögn Gunnars hefur þetta allt gengið sinn vanagang í gegnum öll þessi ár, áhafnirnar hafa verið hörkuduglegar og gott fólk sem hefur unnið með honum.“ Þá segir í fréttinni að Gunnar ætli nú að njóta lífsins með fjölskyldunni sinni og barnabörnunum sem eru orðin tíu talsins, ferðast um landið með hjólhýsið og taka því rólega. Gunnari voru færðar þakkir fyrir vel unnin störf.

„Stefanía Kristjánsdóttir hefur lagt stígvélin á hilluna,“ segir í fréttinni af starfslokum hennar en hún hóf fyrst störf árið 1971 og fyrir utan stuttan tíma þar sem hún starfaði á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki og við barngæslu hefur fiskvinnslan verið hennar ævistarf. „Hjá landvinnslunni hefur Stefanía sinnt öllum almennum fiskvinnslustörf með miklum sóma.“

Haldið var kaffisamsæti til heiðurs Stefaníu í kaffistofu FISK þar sem henni voru færðar þakkir fyrir vel unnin störf. Samstarfsmenn og stjórnendur FISK Seafood óska bæði Gunnari og Stefaníu alls hins besta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir