Hefur þig dreymt um að sofa í kirkju?

Horft yfir gömlu kirkjuna og Gamla bæinn á Blönduósi og Blönduós. MYND: RÓBERT DANÍEL
Horft yfir gömlu kirkjuna og Gamla bæinn á Blönduósi og Blönduós. MYND: RÓBERT DANÍEL

Einhverjir hafa eflaust tekið eftir að Hótel Blönduós, sem opnar að nýju 15. maí eftir gagngerar endurbætur og upplyftingu, hefur skellt í Facebook-leik í tilefni opnunarinnar þar sem spurt er: Hefur þig dreymt um að sofa í kirkju? Heppinn vinningshafi fær síðan gistingu fyrir tvo í gömlu kirkjunni í Gamla bænum. Feyki lék forvitni á að vita hvað væri eiginlega í gangi á Blönduósi og hafði samband Pétur Oddberg Heimisson, markaðs- og sölustjóra.

Fyrst var spurt hvort leggjast ætti í miklar breytingar á fallegu gömlu kirkjunni á Blönduósi sem er í seilingarfjarlægð frá Hótel Blönduós. Hvort útbúa ætti nokkur herbergi í kirkjunni. Svo var ekki.

„„Það má eiginlega segja að þetta verði eins og frekar stór svíta, eitt rúm á besta stað í kirkjunni. Við bindum vonir við að þetta verði vinsæll kostur fyrir pör sem vilja prófa eitthvað sem það hefur ekki prófað áður, að gista í kirkju,“ segir Pétur sem bætir við að einhverjar breytingar verði gerðar á kirkjunni að innan en að utan fái hún að mestu að halda sínu upprunalega útliti.

Hvernig datt ykkur þetta í hug? „Þessi hugmynd kom til um leið og eigendur voru búnir að kaupa kirkjuna. Það hefur tíðkast víða í Evrópu að breyta kirkjum í hostel, hótel, íbúðir, bari og veitingastaði og við viljum einfaldlega bjóða upp á þennan möguleika, að bjóða upp á að hægt sé að gista í henni.“

Hvernig gengur að selja gistingu á nýuppgerðu Hótel Blönduós, hafa viðtökur verið góðar? „Það gengur nú bara nokkuð vel að selja og einhverjir dagar í sumar eru fullbókaðir. Við hófum sölu fyrir örfáum vikum síðan en salan fer vel af stað enda búist við metfjölda ferðamanna til Íslands í sumar og uppbókað á mörgum gististöðum fyrir norðan í sumar. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga frá ferðaskrifstofum sem sýna svæðinu áhuga auk þess sem ferðamenn eru að bóka í gegnum þessar helstu bókunarsíður og heimasíðuna okkar.

Eru eigendur Hótel Blönduóss með fleiri verkefni á teikniborðinu? „Já, við ætlum að opna prjónakaffihús í sumar og stefnum á opnun helgina 9.-11. júní þegar Prjónagleðin fer fram. Að auki opnum við Krúttið í sumar, þar sem gamla bakaríið í Gamla bænum var til húsa. Þar verður hægt að halda veislur, tónleika, uppistand og fleira sem okkur dettur í hug að bjóða upp á,“ segir Pétur að lokum.

Það er augljóslega allt að gerast á Blönduósi – bænum sem aldrei sefur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir