Heklar töskur úr plastpokum

Rakel sýnir blaðamanni handtökin.MYND GG
Rakel sýnir blaðamanni handtökin.MYND GG

Á dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki býr Rakel Ágústsdóttir sem heklar töskur úr plastpokum. Blaðamaður hitti Rakel á herberginu hennar á deild 5 og spjallaði við hana um þessar ótrúlegu töskur sem hún er að búa til. Rakel er svo sannarlega ekki nýbyrjuð að hekla úr plasti en hún heklaði mottur og töskur fyrst þegar mjólkin var í plastpokum.

Hvenær byrjaðir þú á þessu ? „Það byrjaði þegar mjólkin var í plastpokum. Ég flyt á Sauðárkrók 1966, ég man nú ekki hvenær mjólkin fór að koma í líters plastpokum, en ég fór að gera mottur og allt mögulegt úr þessu og þar á meðal töskur. Svo þegar Ómar lét okkur fara að flokka ruslið og strax á fyrsta degi var ég komin með tvo plastpoka, annan undan brauði og hinn undan kartöflum. Þægileg stærð, ég setti þá upp á borð og þrufti að taka þá frá, þegar ég skoðaði þá betur sá ég að þetta var ekki ólíkt gömlu mjólkurpokunum sem við hekluðum úr þarna um árið, svo ég ákvað að prófa,“ segir Rakel og brosir.

Hvernig er þetta gert? Pokinn er klipptur niður í ræmur og síðan rúlla ég þessu upp. Þetta verða eins og litlar dokkur af plasti. Rakel segist vera glöð að geta haft þó þetta því hún er lögblind, en sér nóg til að geta gert þetta. Rakel notar heklunál til að hekla plastið í töskur. Hún segir þetta ósköp auðvelt. Það er vont að hekla úr mjög stífu plasti, brauðpokarnir úr Sauðárkróksbakaríi eru mjúkir og mjög góðir að hekla úr. Einn poki dugar í um það bil einn hring og þá þarf að tengja saman pokana og ef það er rétt gert verður þetta sterkt. Það þarf að passa sig þegar þetta er tengt saman til þess að þetta verði nógu sterkt.“ Það er óhætt að segja að hér er alvöru endurnýting á plasti á ferðinni

Veistu hvað þú ert búin að hekla margar töskur? Ég hef ekki hugmynd um hvað ég er búin að hekla margar töskur.“ Rakel hefur ekki selt eina einustu tösku, en
þær kosta góðverk og hafa farið mjög víða, hún gerir þetta eingöngu til að eyða sínum tíma og er þakklát fyrir að losna við þær. Hún segir að það væri ljótt ef hún losnaði ekki við þær og heldur því fram að það væri ekki pláss fyrir sig í herberginu ef hún ætti allar töskunar sem hún hefur gert. Þegar Rakel er spurð hvað hún sé lengi með eina svona tösku segir hún það misjaft. Hulda dóttir hennar segir að hún geri eina tösku á viku. Heklar oftast eitthvað á hverjum degi. Hún tekur þetta með sér í föndrið til Mæju tvisvar í viku. Svo gerir hún þetta inni á herberginu sínu. Henni finnst mjög mikilvægt að hafa eitthvað að gera í höndunum og veit ekki hvað myndi koma fyrir sig ef hún hefði ekki eitthvað að gera. Henni finnst verst að að hafa misst sjónina, áður fyrr prjónaði hún litla vettlinga og handsaumaði litla sauðskinnskó og roðskó. Rakel heldur að hún hafi farið að missa sjónina þegar hún fékk tölvuna. Hún fékk tölvu sem hún fór að hanga í að eigin sögn. Áður en hún hætti að vinna úti í Fiskiðju var hún nýbúin að taka tölvunámskeið þar sem hún lærði þessi helstu atriði. Fékk svo tölvu og fór að leggja kapla og komst inn á Facebook og Íslendingabók og gat hangið í tölvunni fram eftir nóttu. Svo hringdi hún í börnin þegar hún lenti í ógöngum í tölvunni. Rakel kennir tölvunni um að hún fór að missa sjónina en veit ekki hvort það sé rétt ágískun. Augnlæknarnir hafa þó lofað henni að hún kemur ekki til með að missa sjónina alveg.

Rakel sótti sjálf um á dvalarheimilinu og montar sig af því að hún ákvað að ef hún fengi pláss þá ætlaði hún að hætta að reykja. „Ég kveikti mér í síðustu skígarettunni heim áður en ég fór uppeftir og svo drap ég í og hef ekki kveikt í síðan.“

Það verður erfitt að hugsa ekki til Rakelar ef maður á eftir að rekast á litríkt og fallegt plast.

Inni á herberginu hennar eru Sauðárkróksbakaríspokar í búnkum en þær safna saman pokunum í mötuneytinu á sjúkrahúsinu og láta Rakel hafa þá. Ein amma bað um að öllum plastpokum utan af bleyjum ömmustelpunnar yrði safnað fyrsta árið hennar og heklaði svo Rakel tösku sem daman fékk í eins árs afmælisgjöf frá ömmu sinni.

Viðtalið við Rakel var birt í 44. tölublaði Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir