Hvatt til friðar með myndun friðartáknsins á Skagaströnd

Frá Skagaströnd. MYND: ÓAB
Frá Skagaströnd. MYND: ÓAB

Á morgun, fimmtudaginn 3. mars, hvetur Gleðibankinn íbúa Skagastrandar, og væntanlega alla sem áhuga hafa, til að safnast saman á íþróttavellinum kl. 12:00 til að mynda manngert friðarmerki. Þegar það hefur verið gert verður tekið myndband með dróna, laginu Imagine eftir John Lennon bætt við myndbandið og það síðan sett á Alheimsvefinn og sent til íslenskra fjölmiðla.

Í tilkynningu á vef Skagastrandar kemur fram að markmiðið með þessari táknrænu athöfn er að þátttakendur leggi þannig sitt af mörkum til að jarðarbúar leysi ágreining sinn á friðsamlegan hátt í stað styrjaldarátaka.

Tekið er fram að framkvæmdin tekur aðeins 10–15 mínútur svo allir ættu að geta mætt og tekið þátt í göfugu ákalli um frið.

Það er sem fyrr segir Gleðibankin sem stendur fyrir gjörningnum en sá ágæti banki var stofnsettur á árum bankakreppunnar og hafði þá það markmið að vega upp á móti niðurdrepandi krepputali og bölsýni. Hefur Gleðibankinn síðan komið að fjölmörgum uppákomum og skemmtunum sem hafa stuðlað að því að gera Skagstrendingum lífið léttara.

Heimild: Skagastönd.is
Nánar um stofnun Gleðibankans 2008 >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir