Kafað í hugmyndina um heimilið

Morgan Bresko. MYND AÐSEND
Morgan Bresko. MYND AÐSEND

Á morgun, laugardaginn 2. september, opnar listsýningin Heima /Home í Hillebrandtshúsinu á Blönduósi og er þetta samsýning yfir 20 listamanna af öllu Norðvesturlandi. Það er Morgan Bresko sem stendur að baki sýningarhaldinu en hún flutti til landsins í september á síðasta ári ásamt fjölskyldu sinni. Þau búa á Torfalæk, fjölskyldubýli mannsins hennar, Elvars Inga Jóhannessonar, ásamt tveimur litlum börnum þeirra og gömlum ketti. Feykir spjallaði við Morgan um sýninguna og hana sjálfa.

„Við komum frá Portland, Oregon þar sem ég var í góðri vinnu, börnin voru í góðum skóla og við vorum nýbúin að gera upp gamalt hús, umkringd frábærri fjölskyldu og vinum,“ segir Morgan. Rétt eins og allir aðrir í heiminum fundu fyrir var Covid ekki auðvelt viðureignar og undir lok þess fundu hún og maðurinn hennar að þau þyrftu að breyta til. „Við vorum búin að tala um að flytja til Íslands í mörg ár en gátum aldrei stigið skrefið. Þegar við ákváðum að það væri kominn tími, var þetta mikil umbylting í lífi okkar og afgerandi stund fyrir það hvað heimili þýðir fyrir okkur.“

Um það bil sex mánuðum eftir að þau fluttu þurfti Morgan að kafa djúpt í hugmyndina um heimili og hvernig á að sigla út úr þeirri einangrun sem getur orðið til við að flytja í alveg nýtt samfélag í nýju landi. Sem sérfræðingur á geðheilbrigðissviði vissi ég að ég þyrfti að stíga út fyrir þægindarammann og byrja að skapa mér rými í samfélaginu. Þá hitti ég frábæra fólkið í Leikfélagi Blönduóss og aðstoðaði þar um vorið. Í þeirri vinnu hitti ég Inese Elferte, sem er ótrúlegur listamaður og menningarfrömuður á svæðinu. Við urðum fljótt vinkonur og vorum sannfærðar um að við myndum á endanum gera eitthvað listrænt saman.“

Eftir að leikritinu lauk fór Morgan að mála eyðibýli í nágrenni sínu á Norðurlandi vestra og varð í leiðinni forvitin að vita meira um listalífið í fjórðungunum. „Vá, þvílíkir hæfileikar! Ekki bara myndlistamenn heldur í allri listrænni tjáningu, tónlist, myndlist, dansi og leiklist svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún uppveðruð.

Heimili er eitthvað sem maður getur þurft að syrgja og einnig endurbyggja

„Hugmyndin um heimilið dúkkaði upp í kollinum á mér þegar ég horfði á öll þessi eyðibýli. Ég fór að rannsaka þau og kynna mér sögu þeirra. Það vakti mig til umhugsunar um fjölskyldurnar sem eitt sinn áttu þarna heima, ég fór að velta fyrir mér minningunum sem fólk geymir enn þann dag í dag um þessar yfirgefnu jarðir. Með stríðinu í Austur-Evrópu og Sýrlandi hefur fólk misst heimili sín án þess að hafa nokkuð um það að segja, án nokkurrar ákvörðunar af þeirra hálfu. Heimili er eitthvað sem maður getur þurft að syrgja og einnig endurbyggja. Nokkrar fjölskyldur á Norðurlandi vestra til dæmis, hafa búið á sömu bæjunum í kynslóðir, þannig að fyrir þeim verður heimilið nánast eins og hefð. Heimilið getur verið staður en það getur líka verið manneskja, ástvinur, hlutur, samfélag. Það geta verið allir þessir hlutir í einu. Heimilið getur líka verið það sem við höldum í, staður sem veitir okkur öryggi,“ segir hún.

Þegar Morgan og Inese náðu saman og hún sagði henni frá því hvað hún hafði í huga, að halda sýningu um hugmyndina um heimilið, þá féll Inese samstundis fyrir henni. „Við ákváðum að einbeita okkur að málverkinueða skissumiðlinum og gáfum listamönnum tækifæri til að deila sögum sínum af heimilinu í gegnum verk sín. Listamennirnir okkar koma alls staðar að af Norðurlandi vestra. Sumir fagmenn, sumir áhugamenn. Við erum líka með listamenn á öllum aldri. Verkin sem eru sýnd eru dæmi um ýmsar hugmyndir um heimili í gegnum linsu listamannsins. Við erum með 20 listamenn sem taka þátt og yfir 30 verk til sýnis. Við bjóðum einnig samfélaginu að deila sögum sínum af heimilinu þegar þeir koma í heimsókn á sýninguna. Við erum með stóran vegg sem er ætlaður samfélaginu og framlagi þeirra til heimilisfrásagnar. Við erum öll sjálfboðaliðar hér, svo þetta er sannkölluð grasrótar-samfélagsrekin sýning.“

Að skapa tilefni fyrir samveru

„Lokahugsanir mínar eru þessar; þegar við hugsum um lýðheilsu þá hugsum við flest um heilsugæslustöðvar og lækna. En lýðheilsan er líka að finna leiðir til að rækta gleðina, að skapa tilefni fyrir samveru. Sjálfsvígstíðni er hærri í dreifbýli en í stærri borgum, það á við um allan heim. Ástæðan fyrir því er sú að þegar þú ert með nágranna, þegar þú hefur pláss fyrir fólk til koma saman á, getur verið erfiðara að einangrast og þá er ólíklegra að fólk upplifi sig gleymt. Þegar þú útvegar rými þar sem fólk getur tekið þátt, tjáð sig eða fundið til öryggis, þá sérðu fólk blómstra. Þannig að með þessum hætti erum við að vonast til að gleðja litla samfélagið okkar og vonandi hvetja fleiri til að byrja að skapa, tengjast og kynnast,“ segir Morgan.

Sýningarhaldarar vonast til að sjá sem flesta 2. september á opnun sýningarinnar sem mun standa út septembermánuð. Hún verður opin frá 14:00 - 17:00 mánudaga til föstudaga. „Svo komdu með fjölskylduna þína, vini eða hópa. Við viljum gjarnan fá ykkur í heimsókn og heyra sögur ykkar af heimilinu,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir