Kosið milli fjögurra tillagna að nýju byggðarmerki Húnabyggðar

Fyrr á árinu var íbúakosning í Húnavatnshreppi og á Blönduósi þar sem kosið var um sameiningu sveitarfélaganna. Sameining var samþykkt og það var að ýmsu að hyggja í framhaldinu. Þar á meðal að finna nýju sameinuðu sveitarfélagi, Húnabyggð, nýtt byggðarmerki. Fyrr í sumar var auglýst eftir tillögum og nú nú er hafin kosning á milli þeirra fjögurra merkja sem þóttu álitlegust.

Alls bárust 50 mismunandi tillögur frá 29 hönnuðum og í frétt á vef Blönduóss er þeim sem sendu inn tillögur þökkuð þátttakan og skemmtilegar og fallegar tillögur.

Sem fyrr segir er nú kosið um hvaða tillaga fellur best í kramið og gefst öllum íbúum með lögheimili í Húnabyggð kostur á að taka þátt í valinu en aðeins má kjósa einu sinni. Frá og með miðvikudeginum 9. nóvember var einnig hægt að koma á skrifstofu sveitarfélagsins að Hnjúkabyggð 33 og kjósa. Skrifstofa Húnabyggðar er opin alla virka daga frá kl. 9:00-15:00. Kosningu líkur formlega að kvöldi þriðjudagsins 15. nóvember en þá verður haldinn opinn íbúafundur í Félagsheimilinu á Blönduósi þar sem hægt verður að kjósa. Við ætlum einnig að leyfa yngri íbúum sveitafélagsins að kjósa og grunnskólinn okkar mun hjálpa okkur með það.

Merkin sem um ræðir eru þau sem eru á myndinni sem fylgir fréttinni. Hér er hægt að sjá texta höfunda sem fylgir merkjunum og hér að neðan er hlekkur á kosninguna.

Rafræn íbúakosning um byggðarmerki Húnabyggðar

Þess má geta að Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur sameinuðust einnig í ár. Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á fundi þann 10. október sl. að nota áfram byggðarmerki Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem var hannað af Snorra Sveini Friðrikssyni. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir