Listaflóð á vígaslóð – Sýningu Ásbjargar frá Kúskerpi framhaldið næstu helgi

Sýningu á handverki Ásbjargar frá Kúskerpi, sem sett var upp um síðustu helgi í Kakalaskála á Kringlumýri í Skagafirði í tilefni menningarhátíðarinnar Listaflóð á vígaslóð, verður framhaldið um næstu helgi.

Ásbjörg Elsa Jóhannsdóttir er fædd á Sauðárkróki en ólst upp á Kúskerpi í Blönduhlíð. Foreldrar hennar voru Sigurlína Magnúsdóttir og Jóhann Korshamn Lúðvíksson. Ung að árum fékk Ásbjörg áhuga fyrir hvers konar saumaskap, einkum útsaumi. Móðir hennar var afar natin við að hlúa að þessu áhugamáli og skorti Ásbjörgu því aldrei verkefni. Ásbjörg kenndi handavinnu við Húsmæðraskólann á Löngumýri í 14 ár og hafa því margar notið leiðsagnar hennar.

Fyrir 24 árum varð Ásbjörg fyrir áfalli og hafði lengi vel aðeins mátt í hægri hendi en lét ekki deigan síga þrátt fyrir það. Tók þá kortagerðin við, málning og fleira. Sýningin í Kakalaskála ber handverk listakonunnar fagurt vitni og vert að hvetja sem flesta til að gera sér ferð og skoða fjölbreytta og listilega vel gerða hluti.

Hægt er að fylgjast með atburðum menningarhátíðarinnar á Facebooksíðunni Listaflóð á vígaslóð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir