Lummudagar í Skagafirði - Mikil gleði framundan

Bragðað á lummum á Lummudögum. Mynd:ÓAB
Bragðað á lummum á Lummudögum. Mynd:ÓAB

Nú standa fyrir dyrum hinir árlegu Lummudagar í Skagafirði en þeir verða settir á næsta fimmtudag, þann 22. júní. Að vanda verður mikið um að vera, jafnt fyrir unga sem aldna.

Meðal þess helsta sem á dagskránni er má nefna að eftir setningu sem fram fer á íþróttavellinum á fimmtudagskvöld kl. 19:30 verður efnt til fjölskyldu-Crossfit þar sem leikjum og Crossfit verður blandað saman og verður trúlega úr hin besta skemmtun. Á föstudag verður opið hús hjá júdódeild Tindastóls og einnig verður heitt á könnunni hjá Sólon í Gúttó en þau ætla að hafa opið kl. 13-17 alla helgina. Að þessu sinni eru íbúar hvattir til að hafa götugrill á föstudegi og verður Lummudagsnefnd á ferðinni til að taka partýin út og meta hverjir eiga skilið að vinna til verðlauna fyrir besta grillið.

Margt skemmtilegt verður í boði á laugardaginn. Frá kl. 10 til 14 verða hoppukastalar á bak við sundlaugina og kl. 12 ætlar slökkviliðið að sýna bíla sína og búnað. Kiwanisklúbburinn Freyja ætlar að vera við Landsbankahúsið og dreifa gasblöðrum í boði Lummudaga og selur einnig skemmtilegan varning til ágóða fyrir góðgerðastarfsemi. Í gamla bænum verður götumarkaður milli kl. 14 og 17 og einnig verða margar verslanir með opið og bjóða upp á lummukaffi. Margt fleira verður um að vera á laugardaginn en um kvöldið verður tónlistarhátíðin Drangey Music Festival á Reykjum á Reykjaströnd.

Á sunnudaginn kl. 16 verður svo hægt að ná sér niður eftir helgina með trúar-jóga sem Sigríður Kristín Jónsdóttir jógakennari og Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur sjá um. /FE

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir