Margt til skemmtunar um Laufskálaréttarhelgi

Í Laufskálarétt 2014. Mynd: KSE
Í Laufskálarétt 2014. Mynd: KSE

Hin árlega Laufskálarétt í Hjaltadal verður haldin nú um helgina og má búast við að þar verði margt um manninn að vanda. Smalað verður í fyrramálið en þá fer fjöldi fólks ríðandi fram í Kolbeinsdal til að sækja stóðið sem rekið verður til réttar á Laufskálum.

Þátttakendur eru beðnir að mæta við Laufskálarétt eða við hesthúsið Ástungu kl. 10:00. Rekstrarstjóri er Halldór Steingrímsson í Brimnesi en í viðtali í 35. tölublaði Feykis segir hann að síðustu árin hafi um 300 manns tekið þátt í rekstrinum og þar myndist alltaf mikil stemning. Réttarstörfin hefjast svo kl. 13:00 en þar mæta að jafnaði allt að þrjú þúsund gestir.

Margt verður um að vera í Skagafirðinum í tengslum við Laufskálarétt. Á Varmalandi verður opið hús milli kl. 13 og 17 þar sem hross eru til sýnis og sölu, á Hafsteinsstöðum verður líka opið hús milli kl. 15 og 18 og gefst gestum þar einnig kostur á að virða fyrir sér skagfirska hesta. Á báðum stöðum verður boðið upp á kaffi og kleinur. Í kvöld kl. 20:30 verður svo stórsýning og skagfirsk gleði í Reiðhöllinni við Sauðárkrók. Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar verður í sveiflu á Mælifelli í kvöld og Hljómsveit kvöldsins heldur uppi stuði á efri hæðinni í Miðgarði í kvöld og á Hótel Varmahlíð á laugardagskvöld. Loks verður stóðréttardansleikur í með hljómsveitinni Von ásamt Eyþóri Inga, Magna og Sölku Sól í Reiðhöllinni á laugardagskvöldið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir