Ove og Siggi Sigurjóns í Skagafirði

Þjóðleikhúsið hyggst bruna norður í Skagafjörð og setja upp leiksýninguna Maður sem heitir Ove í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð, nk. laugardag 25. mars kl. 20.  Siggi Sigurjóns fer á kostum sem hinn geðstirði Ove og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda fyrir frammistöðu sína. Sýningin hefur slegið í gegn í Reykjavík og er þegar með 50 uppseldar sýningar.

Í tilkynningu segir að það sé leikhúsinu bæði ljúft og skylt að sinna landinu öllu og því vonast aðstandendur sýningarinnar til að sem flestir geti nýtt tækifærið og séð þessa frábæru leiksýningu á sínum heimavelli. Að sögn Atla Þórs Albertssonar markaðsstjóra Þjóðleikhússins hafa miðapantanir farið hægt af stað fyrir sýninguna í Miðgarði og hefur það valdið vissum áhyggjum. Bendir hann á að gott sé að panta miða tímanlega svo sjáist hvort forsvaranlegt sé að fara með allt úthaldið á staðinn. Miðana er hægt að panta á tix.is og er aðeins um þessa einu sýningu að ræða.

Sýningin hefur hlotið góða dóma gagnrýnenda, m.a. fjórar stjörnur hjá DV , er bráðfyndinn og nístandi sænskur einleikur um sorg og gleði, einangrun og nánd. Hinn 59 ára gamli Ove er reglufastur nákvæmnismaður sem að mati annarra íbúa úthverfisins er óþolandi smámunasamur og skapillur. En að mati hans sjálfs eiga hlutirnir einfaldlega að vera eins og þeir eiga að vera. Þegar ólétt kona að nafni Parvaneh flytur með fjölskyldu sína í götuna er eins og Ove byrji að missa tökin á öllu. Einleikurinn Maður sem heitir Ove er byggður á samnefndri skáldsögu sem notið hefur mikilla vinsælda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir