Skagafjörður – góður staður til að horfa á tennis og fótbolta

HMS Northumberland með Hofsós í bakgrunni. MYNDIR: ÓAB
HMS Northumberland með Hofsós í bakgrunni. MYNDIR: ÓAB

Einhverjum er sennilega enn í fersku minni heimsókn HMS Northumberland sem kastaði ankerum norður af Lundey í Skagafirði um síðustu helgi. Feykir sagði frá heimsókninni á laugardag og var líkum leitt að því í gamni að Bretarnir væru sennilega komnir til að skoða lunda eða horfa á fótboltaleik Tindastóls og KFS í 3. deildinni í rjómablíðunni. Samkvæmt frétt um frétt Feykis á heimasíðu breska sjóhersins var seinni tilgátan ekki fjarri sannleikanum.

Í fréttinni segir að skipverjar hafi í raun fengið leyfi til að hvíla lúin bein og njóta þess að horfa á helgarsportið; tennis og fótbolta. Kannski eru ekki allir sem kaupa svona sakleysislega útskýringu á heimsókn HMS Northumberland í Skagafjörð en það er allt önnur Ella. Í lauslegri þýðingu á frétt www.royalnavy.mod.uk segir um heimsóknina:

„Eftir lýjandi æfingar á Norður-Atlantshafinu – þar sem blíðan er sjaldnast við völd – bað Devonport-skipið [HMS Norhumberland] um – og fékk – leyfi frá íslenskum yfirvöldum til að hvíla lúinn kjöl í íslenskri lögsögu og gefa 180 sjómönnum tækifæri til að slaka á, endurhlaða rafhlöðurnar ... og njóta þess að horfa á helgarsportið ... Eftir að hafa innbirt báða úrslitaleiki Wimbledon-mótsins kastaði Northumberland akkerum í tæka tíð fyrir úrslitaleik EURO 2020 milli Englands og Ítalíu til að ná útsendingunni við kjöraðstæður.“

Blaðamaður Feykis ýjaði að því að Bretarnir hefðu valið sér góðan tíma og blíðuveður til að kíkja á lundastofninn eða leikinn á Sauðárkróksvelli. Bretarnir svöruðu þeirri athugasemd léttir: „Því miður tókst engum úr áhöfninni að komast í land til að njóta „blíðviðrisins“ (17 stiga hita sem er um það bil eins hlýtt og það gerist á Íslandi) eða komast nærri lundastofninum.“

En það er klárlega borðleggjandi að Skagafjörður er góður staður til að horfa á helgarsportið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir