Kom ekki upp einu orði – segir Reynir Snær

Já, sæll! Paul McCartney og Reynir Snær saman á sviði. MYND AF FB-SÍÐU REYNIS
Já, sæll! Paul McCartney og Reynir Snær saman á sviði. MYND AF FB-SÍÐU REYNIS

Ég var að útskrifast úr BA námi í músik við Liverpool Institute for Performing Art sem ég kláraði 2020. Heimsfaraldur gerði það að verkum að ekki var hægt að halda útskrift fyrr en núna í sumar. Skólinn nýtur styrkja frá McCartney,“ tjáði gítarséníið Reynir Snær Magnússon Feyki þegar forvitnast var um hvernig það kom til að hann greip í spaðann á aðal spaðanum í Liverpool, Paul McCarteny, en sjá mátti mynd af atvikinu á Facebook-síðu Reynis Snæs.

Reynir Snær, sem er Króksari, er sennilega einn af vinsælli gítarleikurum landsins um þessar mundir; spilar með mörgum helstu tónlistarmönnum landsins og því fastagestur á skjám landsmanna og í tónlistaratriðum í Vikunni með Gísla Marteini – svona svo eitthvað sé nefnt. Reynir sagði Feyki að hann hafi vissulega verið búinn að reikna með þessu handtaki þar sem Paul hefur verið viðstaddur allar útskriftir skólans frá byrjun. „En það var mikill fiðringur, súrealískt að standa við hliðina á þessum manni.“

Náðirðu að spjalla eitthvað við kappann? „Ég varð alveg blank þegar ég steig til hans. Kom ekki upp einu orði og heyrði ekkert hvað hann sagði við mig. Man varla eftir þessu mómenti.“

Ef þú ættir kost á að taka eitt lag með McCartney, hvaða lag yrði fyrir valinu? „Það er eginlega ómögulegt að velja bara eitt. Myndi helst vilja taka Sgt. Peppers eins og hún leggur sig með honum.“

Hvað er framundan hjá þér í gítarmennsku, einhver spennandi verkefni? „Já, það er alltaf eitthvað spennandi í gangi. Það kom út á dögunum cover-plata af fyrstu plötu Ásgeirs Trausta þar sem ég tók þátt í að vinna eitt lag með GDRN. Svo er ýmis ný músik að koma út á næstu vikum sem ég hef verið með puttana í. Ég ætla að spila með Bríeti næstkomandi laugardag á Tónaflóði Rásar 2 og svo dembi ég mér á smá evróputúr með Axel Flóvent og sænskum listamanni sem heitir Plàsi í byrjun september.“

Ef einhver er ekki með þennan Paul á hreinu þá segir á Wikipediu: Sir James Paul McCartney (fæddur 18. júní 1942) er breskur söngvari, tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann var einn af meðlimum Bítlanna. Eftir Bítlana hóf hann sólóferil undir eigin nafni og með hljómsvetinni Wings. Hann er í heimsmetabók Guinness fyrir að vera sá tónlistarmaður og lagahöfundur sem mestum árangri hefur náð í tónlistarsögunni, með 60 gulldiska og 100 milljónir seldra platna.

Einfaldlega sá stærsti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir