Skemmtileg norðlensk tenging fylgdi góðri gjöf í Portúgal

Elísabet með treyjuna hennar Glódísar sem Sandra afhenti henni. MYND: GUNNFRÍÐUR BJÖRNSDÓTTIR
Elísabet með treyjuna hennar Glódísar sem Sandra afhenti henni. MYND: GUNNFRÍÐUR BJÖRNSDÓTTIR

Íslenska kvennalandsliðið spilaði við lið Portúgals í Pacos de Fer­reira í Portúgal í gær í umspilsleik þar sem sæti á HM kvenna næsta sumar var í húfi. Eftir smá dómaraskandal náðu heimastúlkurnar yfirhöndinni í leiknum og sigruðu 4-1 eftir framlengdan leik. Feykir ákvað að senda ekki blaðamann á leikinn en það gerði Vísir. Í frétt í morgun var sagt frá því að einn stuðningsmanna íslenska liðsins, Elísabet Ólafsdóttir, leikmaður á eldra ári í 5. flokki KR, hafi fengið góða gjöf í flugstöðinni eftir leik og flaug heim með stjörnur í augum.

Elísabet er dóttir Ólafs Helga Þorkelssonar og Króksarans Gunnfríðar Björnsdóttir, Bjössa Sighvats og Drífu. Gjöfina góðu afhenti Sandra markvörður Elísabetu í plastpoka en í honum var keppnistreyja og keppnisskór Glódísar Perlu Viggósdóttur sem var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Íslands í gær og markaskorari liðsins. Fram kemur í frétt Vísis að ekki var búið að ákveða hvort treyjan góða yrði þvegin við heimkomuna.

Til að tengja frásögnina enn betur við Norðurland má nefna að Sandra Sigurðardóttir, markvörður, kom upp í gegnum yngri flokka starf hjá Knattspyrnufélagi Siglufjarðar en hún spilar nú með Val og er nýsleginn Íslands- og bikarmeistari. Glódís Perla, sem spilar með liði Bayern Munchen, á aftur á móti ættir að rekja til Skagastrandar en amma hennar er Guðbjörg Bryndís Viggósdóttir og afinn Magnús B. Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri á Skagaströnd.

Um 250 Íslendingar voru mættir á völlinn til að styðja landsliðið og létu vel í sér heyra. Feykir hafði samband við Gunnfríði (mömmu Elísabetar) og spurði hvernig það hefði komið til að þau skelltu sér á leikinn. „Bara smá skyndiákvörðun að fara fyrst Icelandair ákvað að henda í pakkaferð!“ Hún segir að nokkrar stúlknanna í landsliðinu hafi tekið flugið heim með sömu vél og stuðningsmennirnir. Sandra hafði bara komið til Elísabetar og sagst vera með gjöf til hennar frá Glódísi.

Ekki amalegt!

- - - - - 
/SG & ÓAB

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir