Skemmtileg stund og sérlega þjóðleg

Krásirnar og kvæðarausið stóðu algerlega undir væntingum í gamla fjósinu í Bólstaðarhlíð þetta menningarkvöld og voru gestir hæstánægðir að því loknu. - Beðist er velvirðingar á því að rangur myndatexti fór í pappírsútgáfu greinarinnar. MYNDIR: PALLI FRIÐRIKS
Krásirnar og kvæðarausið stóðu algerlega undir væntingum í gamla fjósinu í Bólstaðarhlíð þetta menningarkvöld og voru gestir hæstánægðir að því loknu. - Beðist er velvirðingar á því að rangur myndatexti fór í pappírsútgáfu greinarinnar. MYNDIR: PALLI FRIÐRIKS

Laugardaginn 6. apríl sl. var boðað til mikillar og þjóðlegrar menningarveislu í gamla fjósinu í Bólstaðarhlíð í Húnavatnssýslu þar sem fram fór viðburðurinn Hrossakjöt og kvæðaraus. Undirritaður var gestur þeirra hjóna, og ferðaþjónustubænda, Freyju Ólafsdóttur og Einars Kolbeinssonar og í stuttu máli sagt var þetta einstaklega skemmtileg stund og sérlega þjóðleg.

Á dagskrá var, eins og vænta mátti, kvæðaraus þeirra Einars, Þórðar Pálssonar frá Sauðanesi og Árna Geirhjartar Jónssonar. Tókst þeim að rausa heilmargar heimatilbúnar vísur með miklum ágætum eins og þeim er von og vísa og snilldar innlegg Péturs Péturssonar, læknis á Akureyri og fyrrum nágranna Bólhlíðinga, í stafrænu formi var æði skemmtilegt. Upphaflega átti hann að vera á staðnum en sagði í sínu rafræna ávarpi að tvennt hefði aftrað honum frá því að leggja í ferðalag í önnur héruð, annað að veðrið var leiðinlegt og færðin á Öxnadalsheiðinni eftir því. Hin ástæðan sem Pétur gaf upp var núverandi útlit hans en hann skartar þessa daga myndarlegu glóðarauga sem hann hlaut í viðskiptum sínum við frystikistu heimilisins. Rakti hann aðrar hrakfallasögur af sjálfum sér og mikið í bundnu máli sem eignað er vini hans og fyrrum starfsbróður, Hjálmari Freysteinssyni.

Til að brjóta upp hnútuköst hagyrðinga af og til þandi Sveinn Árnason, kenndur við Víðimel, nikkuna og lék undir fjöldasöng sem gestir kunnu vel að meta.

Matinn, sem á boðstólum var, kjömsuðu gestir af bestu lyst enda úrvals hrossasaltkjöt með uppstúf og kartöflum, soðnum gulrófum og kartöflumús. Áður en fólk tók til matar síns var sungin borðbæn, Skjónukvæði, Kristjáns Eldjárns, og átti sannarlega vel við af þessu tilefni.

Líklegt má telja að hátt í hundrað manns hafi setið þennan menningarviðburð í þessu sérstæða menningarhúsi í Bólstaðarhlíð en húsnæðið er eins hrátt og hugsast getur, en hentar einstaklega vel fyrir viðburð sem þennan. Í Bólstaðarhlíð er rekinn ferðaþjónusta og mæli ég með fyrir alla að skoða þann kost sem þar er boðið upp á fyrir alls kyns viðburði og jafnvel ættarmót.

Aðspurður segir Einar að viðburðurinn Hrossakjöt og kvæðaraus hafi verið haldinn í fyrsta skiptið í fyrra og þá, eins og nú, verið húsfyllir, rétt um hundrað sálir. Hann segir þau hjón kjósi að hafa þetta mjög frjálslegt og það líti út fyrir að fólk hafi gaman af. Það var að minnsta kosti upplifun undirritaðs og borðfélaga.

Kominn fyrir klíkuskap, í kvæðamannaliðið


Við hagyrðingaborðið sátu með Einari þeir Þórður Pálssonar frá Sauðanesi, vinur til margra ára, og Árni Geirhjörtur Jónsson, sem kynnti sig sem aðkomumann úr Eyjafirði. Hann þekkja margir úr vísnaheiminum en hann sér m.a. um vísnaþátt Bændablaðsins. Skaut hann hart á Húnvetninga að þurfa að sækja hagyrðing út fyrir héraðið og fengu þeir húnvetnsku margar hnútur frá Eyfirðingnum í bundnu máli.

„Við Árni Geirhjörtur kynntumst í gegnum vísnagerð og höfum oft verið á hagyrðingakvöldum saman í gegnum tíðina. Það hefur leitt til órofa vináttu þó talsmátinn bendi til annars, eins og glögglega mátti greina þarna um kvöldið,“ segir Einar sem náði vel að svara sendingum Árna um kvöldið:

   Flestu hér á dreif hann drap,
   drjúgur átti sviðið,
   kominn fyrir klíkuskap,
   í kvæðamannaliðið.

   Ganga fram af gestum má,
   glatast ró og næði,
   þurfa að hlusta aftur á,
   Árna lesa kvæði.

   Víst hef margan vondan sið,
   virka fúll og tregur,
   en ef ég miða Árna við,
   er ég dásamlegur.

Þá fékk Þórður sinn skammt líka:

   Kveikjum neista kvæðabáls,
   keik með anda góðum,
   en þarna verður Þórður Páls,
   að þreyta fólk með ljóðum.

Verið að byggja upp aðstöðu

Eins og að framan greinir er gamla fjósið á staðnum orðið að veitinga- og menningarstað en ekki er langt síðan að ekki leit út fyrir að það yrði notað sem slíkt.

„Gamla fjósið hér var að hruni komið og við fórum eiginlega óvart í að laga það til fyrir tæpum fimm árum. Verkefnið er enn í gangi og stöðugri þróun með dyggri aðstoð dýrmætra vina og ættingja okkar. Við leggjum mikla áherslu á að endurnýta gamalt efni og hluti og skapa þannig öðruvísi, notalegt og þjóðlegt andrúmsloft,“ segir Einar og nefnir að hryggjarstykkið í starfsemi þeirra sé að leigja ferðamönnum herbergi eða íbúðir til gistingar. „Síðan eru hér alls konar viðburðir, s.s. ættarmót, brúðkaup, afmæli o.þ.h. og við höfum smám saman verið að byggja upp aðstöðu fyrir slíkt. Til dæmis verður gönguferðin okkar á komandi sumri í fimmta sinn. Þá koma hér 70 - 100 manns, ganga 12 - 14 kílómetra og kynnast sögu svæðisins, s.s. Laxárdals, Kálfárdals o.fl. Gestir gleðja sig svo við mat, drykk, söng og lifandi tónlist í nóttlausri veröld hins íslenska sumars. Allt þetta gerist með afar dyggri aðstoð ættingja og vina sem í raun gera þetta mögulegt,“ segir Einar að lokum.

/Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir