Sólon ríður á vaðið í Sæluviku með myndlistasýningu á morgun - Leikfélagið rekur lestina - Myndband

Frá æfingu Leikfélags Sauðárkróks á nýju leikriti leikstjórans, Péturs Guðjónssonar, Á frívaktinni. Mynd: PF.
Frá æfingu Leikfélags Sauðárkróks á nýju leikriti leikstjórans, Péturs Guðjónssonar, Á frívaktinni. Mynd: PF.

Samkvæmt almanakinu hefst Sæluvika Skagfirðinga nk. sunnudag en ákveðið hefur verið að engin formleg setning skuli fara fram að þessu sinni og má kenna Covid-ástandinu um. Nokkrar uppákomur hafa nú þegar verið auglýstar en ljóst má vera að Sæluvikan verður ansi mikið öðruvísi en fólk á að venjast. Sigfús Ólafur Guðmundsson, verkefnastjóri atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, segir að setningin verði með óhefðbundnu sniði eins og búast megi við. „Það verður ekki formleg setning Sæluviku heldur verður athöfn á laugardegi í lok Sæluviku með samfélagsverðlaun og úrslit vísnakeppni og svo verður Héraðsskjalasafnið með sýningu tileinkaða Feyki í tilefni 40 ára starfsafmælis. Laugardagurinn verður sem sagt aðaldagurinn og við hvetjum fólk til að taka þátt, hvort sem er rafrænt eða í mannheimum.“

Þeim sem hafa hug á að setja upp viðburð í Sæluviku, hefðbundinn eða rafrænan, er bent á að hafa samband við Hebu Guðmundsdóttur á netfangið heba@skagafjordur.is eða í síma 455 6017.
Von er á  heimasíðu Sæluviku í loftið fljótlega en hún verður afhent Sveitarfélaginu í dag og á þá eftir að færa efni inn á hana, að sögn Sigfúsar Ólafs.

Á Facebooksíðu Sæluviku hafa tónleikar verið auglýstir í Gránu Bistro þar sem skagfirskir tónar frá skagfirskum konum fá að leika um eyru gesta en þar leiðir tónleikahaldarinn Hulda Jónasar fjölda söngvara á svið.

Samsýning myndlistarfólks í Sólon, félagi myndlistarfólks í Skagafirði og nágrenni, verður haldin í 12. sinn á Sæluviku Skagfirðinga. Sýningin verður í Gúttó frá laugardeginum 24. apríl og stendur til og með sunnudeginum 2. maí.

Opið verður á virkum dögum kl. 16-19 og um helgar kl. 13-16.

Nokkur fyrirtæki í Aðalgötunni á Króknum ætla að hafa kvöldopnun á miðvikudag í Sæluvikunni. Opið verður kl. 19:00-21:00 og ýmis tilboð í gangi, gleði og gaman. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að kíkja á röltið, njóta samverunnar og versla etv. hjá einyrkjunum, lista- og handverksfólkinu og litlu fyrirtækjunum sem prýða fallega gamla bæinn undir Nöfunum.

Þá er ljóst að Leikfélag Sauðárkróks mun ekki frumsýna Sæluvikustykkið fyrr en eftir Sæluviku enda hafa verið mikil höft vegna sóttvarnaráðstafana. Þar til nýlega var óleyfilegt að allur hópurinn æfði saman á sviði en eftir rýmkun á fjöldatakmörkunum tókst að koma öllum saman og renna leikritinu.

Feykir mætti með myndavélina á æfingu í vikunni og tók upp söng Guðrúnar sem Rannveig Stefánsdóttir leikur, og sjá má hér að neðan. Tekið skal fram að um æfingu er að ræða og leikmynd og búningar ekki endanlegir.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir