Spánski hljómsveitarstjórinn Joaquín de la Cuesta auðgar menningarlífið norðanlands

Joaquín de la Cuesta er með mörg járn í eldinum. Aðsendar myndir.
Joaquín de la Cuesta er með mörg járn í eldinum. Aðsendar myndir.

Það var árið 2020 sem Joaquín de la Cuesta, tónlistarmaður, hljómsveitarstjóri og kennari, kom í Skagafjörðinn frá spænsku eyjunni Tenerife til að kenna við Tónlistarskóla Skagafjarðar. Hann segist alltaf hafa litið á sig sem tónlistarlega eirðarlausan einstakling sem ávallt leiti að nýjum áskorunum eða markmiðum sem stuðlað geti að tónlistarmenningu hvar sem hann fer.

Sem hljómsveitarstjóri hefur Joaquín verið verðlaunaður í nokkrum alþjóðlegum hljómsveitarstjórnarkeppnum á tónleikaferðalögum sínum, m.a. í Argentínu, Spáni og í Asíu, og einnig hefur hann nýlega gefið út ítarlega rannsókn sína á áður óþekktu verki sem kom í leitirnar fyrir ekki svo löngu, Konsert fyrir píanó og hljómsveit, eftir frægan 19. aldar spænskan píanóleikara og tónskáld, en Joaquín er sérfræðingur í spænskri sinfónískri tónlist á 19. öld og fyrsta þriðjungi 20. aldar.

Hér á Norðurlandi og í Skagafirði hefur Joaquín verið að undirbúa nokkur mjög svo athyglisverð tónlistarverkefni sem vonandi fara af stað innan langs tíma en hann vinnur nú þegar að stofnun Nordurland Kammer Philarmonie, kammerhljómsveitar sem hann vonast til að geti boðið upp á tónleikaröð þar sem heimafólk og aðrir landsmenn geti gerst áskrifendur að en áætlað er að tónleikar verði haldnir í héraði sem og víðar.

Hann segir skipulagningu sinfóníukórtónleika einnig vera á teikniborðinu og er kórinn opinn öllum þeim sem áhuga hafa á að taka þátt í að túlka Sálumessu Mozarts en upplýsingar um það muni koma síðar.

Þá eru einnig í undirbúningi nokkrar útfærslur að tillögum þar sem íslenskir einsöngvarar, eða jafnvel tónlistarnemar og skólafólk í héraðinu, fái að spreyta sig með verkefninu „Kammersveitin innan frá“ eða „Kórstjórnarnámskeið fyrir byrjendur“.

Í samstarfi við Tónadans verður sett upp, í stuttri útgáfu, hið geysivinsæla tónverk Karnival dýranna, etir Camille Saint-Saéns, og hefur Joaquín tekið að sér að sjá um tónlistarþáttinn með lítilli hljómsveit sem nú þegar hefur hafið æfingar en nemendur Tónadans munu sjá um klassískan ballett.
Joaquín segir að löngun hans til að leggja sitt af mörkum í menningarlífi okkar Íslendinga sé mikil og vonar að það að bjóða upp á tónlist í hæsta gæðaflokki, sem reyndur hljómsveitarstjóri fer fyrir, muni skila framúrskarandi niðurstöðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir