„Stærsta ógn heilbrigðiskerfisins í dreifbýli er mönnunarvandinn“

Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga við HSN og heimilislæknir á Sauðárkróki, spjallar við Feyki. MYND: ÓAB
Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga við HSN og heimilislæknir á Sauðárkróki, spjallar við Feyki. MYND: ÓAB

Mikið álag hefur verið á heilbrigðisstofnunum okkar á Norðurlandi vestra undanfarin ár, líkt og víðast hvar í veröldinni eftir baráttu við heimsfaraldur kórónuveirunnar illvígu. Veiran hefur að líkindum ekki sagt sitt síðasta en svo virðist sem nú hafi tekist að temja hana að einhverju leyti. Í tilefni af því hafði Feykir samband við Örn Ragnarsson sem er framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) en undir hann falla m.a. lækningar, rannsóknarstofur, röntgen, sjúkraflutningar og sálfélagsleg þjónusta. Að hluta starfar Örn svo sem heimilislæknir á Sauðárkróki.

HSN er með 17 starfsstöðvar á Norðurlandi en það starfa um 600 manns hjá stofnuninni í um 400 stöðugildum. Um það bil 150 starfsmenn eru við heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og 70 á Blönduósi en hér á Norðurlandi vestra eru einnig starfsstöðvar á Skagaströnd og Hofsósi.

Aðspurður um hvernig Erni hafi þótt HSN ná að tækla Covid-faraldurinn segir hann að sér hafi fundist starfsfólk HSN standa sig einstaklega vel. „Þetta var gríðarleg vinna og mikið álag sem stóð lengur en áætlað var í fyrstu. Sífellt nýjar áskoranir með sýnatökum, bólusetningum og sóttvarnaraðgerðum sem höfðu áhrif á alla starfsemina. Starfsfólk var í raun ótrúlega jákvætt og samstíga í að ganga í þessi verkefni.“

Fannst þér við Íslendingar bregðast rétt við því sem var í gangi og var fólk þolinmótt varðandi þær aðgerðir sem ráðast þurfti í? „Almennt fannst mér Íslendingar bregðast rétt við og landinn taka tilmælum og reglum skynsamlega. En eins og gengur voru ýmsir sem töldu sig vita betur og höfðu aðrar skoðanir en yfirvöld. Kannski kom það á óvart að aðeins ein umsókn barst síðan um auglýsta stöðu sóttvarnarlæknis.“

Hefðum við getað gert eitthvað betur? „Sjálfsagt hefði eitthvað mátt gera á annan hátt en það er ekki þar með sagt að það hefði alltaf leitt til betri niðurstöðu. Þau sem stóðu vaktina á landsvísu fannst mér gera það afar vel.“ Örn segir að enn séu að greinast einstaklingar með Covid-19 og að örugglega sé meira um Covid smit og veikindi en tölur segja til um þar sem mun minna er um sýnatökur. „Alvarleg veikindi eru mun fátíðari en áður, bæði eru þau afbrigði veirunnar sem nú eru í gangi vægari og síðan hafa bólusetningar gerbreytt myndinni til hins betra.“

Stendur okkur enn ógn af veirunni eða höfum við náð utan um faraldurinn? „Við höfum náð utan um faraldurinn eins og staðan er í dag en vitum ekki hvernig veiran kemur til með að haga sér í vetur eða í framtíðinni.“

„Við þurfum að gera átak í fjarheilbrigðisþjónustu“

Nú er oft talað um að þjónusta Heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni fari minnkandi. Hvað finnst þér um þá fullyrðingu? „Vissulega hefur þjónusta sem var til staðar á einstaka stað horfið eða færst á næstu heilsugæslu og ákveðin sérfræðiþjónusta eins og augnlækningar eru ekki lengur til staðar á mörgum stöðum. Á sama tíma hafa víða orðið breytingar á íbúafjölda og samgöngubætur komið til. Almennt tel ég þó að grunn heilbrigðisþjónusta hafi ekki minnkað en hana má klárlega bæta. Þegar talað er um minni þjónustu er oft átt við skurðaðgerðir og fæðingaþjónustu. Aðstæður í dag, svo sem kröfur um gæði, öryggi og þjónustu, aukin fagleg sérhæfing og flóknari, betri og sérhæfðari tækjabúnaður, gera það að verkum að þessi þjónusta verður fyrst og fremst á stóru sjúkrahúsunum, Landspítala og á Akureyri. Alls staðar væri meira fjármagn vel þegið en stærsta ógn heilbrigðiskerfisins í dreifbýli er mönnunarvandinn.“

Nú er ljóst að það verður varla boðið upp á eins mikla þjónustu og við vildum úti á landi. Hvað vildir þú sjá gert betur varðandi þjónustu og annað hér á okkar svæði hjá HSN? „Ég tel að við eigum að veita góða grunnþjónustu á landsbyggðinni, heilsugæslu með hjúkrunardeildum og á stærri stöðum litlum sjúkradeildum. Geðheilbrigðisþjónustu þarf að bæta frekar, bæði við börn og fullorðna. Síðan þarf að koma skipulagi á sérfræðiþjónustuna úti á landi. Með sjúkrahótelum hefur aðstaða fólks utan af landi breyst til hins betra þegar það þarf að leita á stóru sjúkrahúsin en þar getum við bætt okkur enn frekar. Það á ekki síst við um konur sem þurfa þangað að leita á fæðingardeildir, fyrir þær, maka og fjölskyldu. Við þurfum að gera átak í fjarheilbrigðisþjónustu, þannig væri t.d. hægt að fá að hluta til þjónustu sérgreinalækna og fleiri fagstétta. Það vantar fólk til vinnu og lengi hefur verið rætt að bæta þurfi skilyrði þess til að lifa og starfa á landsbyggðinni en það verður að fara að raungerast. Við skipulag heilbrigðisþjónustu þarf að horfa til íbúafjölda, fjarlægða milli staða og við stóru sjúkrahúsin og til samgangna. Bættar samgöngur og sjúkraflutningar sem eru víða í ágætu horfi hafa líka áhrif á þjónustu.“

Verður það sífellt erfiðara að fá sérfræðinga í heimsókn á stofnanirnar eða hefur það gengið vel að þínu mati, hverjir eru kostirnir við að fá sérfræðinga út á land? „Það er og hefur verið misjafnt hvernig og hversu mikil sú starfsemi hefur verið milli stofnana og milli starfsstöðva en almennt er það orðið erfiðara að fá sérfræðinga út á land. Þar þarf að gera átak á landsvísu með aðkomu heilbrigðisyfirvalda, sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og lækna. Þarna má líka nýta tæknina mun betur, fjarheilbrigðisþjónustu, þar sem læknir og skjólstæðingur geta verið í sitthvorum landshlutanum. Að læknir leggi í ferðalag til að hitta hóp sjúklinga er auðvitað einfaldara en að hópur fóks ferðist til að hitta sama lækninn. Margir skjólstæðingar eiga líka erfitt með að ferðast og þurfa jafnvel einhvern til að fylgja sér. Tækjabúnaður sem læknir þarf í sinni vinnu getur líka haft þau áhrif að erfitt er fyrir hann að flytja sig af sinni stofu eða stofnun.“

Á síðustu öld var skurðstofa á Króknum en ekki lengur. Er einhver áhugi á að taka hana í gagnið aftur? „Skurðstofa á Króknum átti fullan rétt á sér á sínum tíma. Þar eru nú gerðar speglanir á göngudeild en engar aðgerðir á skurðstofum. Þar sem eru skurðstofur þarf flókinn og dýran tækjabúnað og sérhæft starfsólk sem ekki er í boði fyrir fámenna staði. Skurðlæknar eru flestir eða allir með undirsérgrein og sinna sínu oft þrönga sviði og hafa leyst af hólmi almenna skurðlækninn sem sinnti meira og minna öllu. Það er ekki í umræðunni að opna skurðstofu á Króknum og ég sé það ekki gerast í nánustu framtíð.“

Það hefur verið gagnrýnt að verðandi mæður þurfi að bruna á Akureyri, við alls konar aðstæður, til að fæða börn. Hvað finnst þér um það ástand og eru einhverjar líkur á að breyting verði á? „Kröfur um gæði og öryggi leiða til þessarar niðurstöðu en það þarf að bæta gistiaðstöðu fyrir verðandi foreldra og fjölskyldu nærri sjúkrahúsunum.“

„Bæði gaman og gefandi að starfa sem læknir“

Hvernig hefur gengið að fá lækna til starfa hér á Norðurlandi vestra, eru ungir læknar spenntir að koma heim til starfa? „Það vantar lækna til starfa mjög víða um land. Það á reyndar við um fleiri heilbrigðisstéttir eins og hjúkrunarfræðinga. Það hefur þó gengið nokkuð vel hér á Króknum þar sem við höfum á síðustu árum náð að fá heim og ráða tvo unga lækna eftir sérnám. Eins hafa læknanemar og kandídatar sýnt áhuga á að koma í styttri tíma. Á Blönduósi hefur aftur á móti ekki tekist að ráða fasta lækna til starfa undanfarin ár en mannað er með hópi lækna sem skiptast á að koma.“

Það er talað um að stækka þurfi Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki. Er það mál í einhverjum farvegi? „Það er vinna í gangi við að gera öll hjúkrunarrýmin að eins manns stofum með snyrtingu. Þá fækkar rýmum þar sem flest þessara herbergja voru ætluð fyrir tvo. Því þarf að byggja við og það er vonandi að komast í farveg.“

Er gaman og/eða gefandi að vera læknir? „Það er bæði gaman og gefandi að starfa sem læknir. Það er krefjandi og að starfa úti á landi er talsvert frábrugðið því sem er í borgum og stærri bæjum í nálægð við sjúkrahús og bráðadeildir og vaktaálag yfirleitt meira,“ segir Örn að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir