Stórskemmtilegt Hárlakk í Varmahlíð

Allir nemendur 7.-10. bekkjar tóku þátt í uppsetningunni. Myndir: Gunnar Rögnvaldsson.
Allir nemendur 7.-10. bekkjar tóku þátt í uppsetningunni. Myndir: Gunnar Rögnvaldsson.

Það er tilhlökkunarefni í byrjun hvers árs þegar árshátíðarleikrit eldri bekkja Varmahlíðarskóla eru sett á fjalirnar. Engin breyting var á núna fyrir nýliðna helgi og var tvívegis húsfyllir í Miðgarði á ameríska söngleiknum Hárlakki ( Hairspray) eftir Mark O´Donnel og Thomas Meehan í íslenskri þýðingu og staðfæringu Írisar Olgu í Flatatungu og Árna Friðrikssonar. Sögusviðið er Baltimore í byrjun sjöunda áratugararins þegar sjónvarpið og rokktónlistin er allsráðandi hjá unglingum sem sumum fannst þá sem nú nokkuð skorta á skilning foreldranna þegar kemur að skemmtunum. En söngleikurinn er líka áminning um það hve stutt er síðan kynþáttafordómar og aðskilnaður kynþátta voru ríkjandi í Bandaríkjunum og m.a. tónlistin átti sinn þátt í að breyta þeim viðhorfum.

Eins og undanfarin ár eru dagarnir eftir jólafríið helgaðir æfingum en samt sem áður er óskiljanlegt hvernig Helgu Rós leikstjóra og Írisi Olgu sviðsmyndahönnuði tekst í samstarfi við nemendur og aðra kennara að gera tveggja tíma verk sýningarhæft á í rauninni sjö æfingadögum, verk með miklum texta, dansatriðum, fjölda laga sem fæst eru þekkt og glæsilegum búningum. Og ekki bara sýningarhæft. Seinni sýningin var hreint út sagt stórskemmtileg og viðtökurnar eftir því. Gaman var líka að sjá hve margir gestir voru í salnum sem engar beinar tengingar áttu við leikara eða nemendur heldur einungis komnir til að njóta góðrar skemmtunar.

Enn og aftur sannast hve dýrmætt uppbyggingarstarf er unnið með þessum hætti. Allir fá hlutverk við sýninguna og þurfa að taka ábyrgð á sér og gagnvart öðrum. Vissulega er leikhefðin sterk í skólanum en ugglaust hafa einhverjir farið út að brún hins þægilega í hlutverkum sínum. Það var þó ekki að sjá því sýningin rann lipurlega. Tímasetningar góðar, textinn hnökralaus en sumir hefðu að ósekju mátt tala ögn hærra fyrir ömmurnar og afana. Hnyttnin í tilsvörum komst vel til skila og söngurinn sem var bæði mikill og erfiður einkum fyrir strákana var leystur vel af hólmi.

Það er hálf ósanngjart að draga einhverja út úr hópnum sem allur lagði sig fram. Samt sem áður má ég til með að nefna Guðnýju Rúnu sem túlkaði hina lífsglöðu og kláru Tracy bæði í söng og leik einstaklega vel og gaf persónunni sérdeilis trúverðugan blæ. Hekla Valdís lék svo prakkarann Penny með tilþrifum, fór aldrei úr karakter og punthitti brandarana. En stjarnan var Davíð í Flatatungu í hlutverki Ednu móður Tracy. Tök hans á hinni lífsreyndu en ráðagóðu móður voru stórkostleg og minntu á löngum köflum á Mrs Brown í sjónvarpi allra landsmanna. Gerfið, dansatriðið og samtölin við Wilbur eiginmanninn, meistaralega leikinn af Jódísi, hollingin öll svo óborganlega fyndin enda uppskar hann mikið klapp og hlátur.

Til hamingju með frábæra sýningu kæru nemendur og aðstandendur.

Gunnar Rögnvaldsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir