Tindastólsmenn láta hendur standa fram úr ermum og það er leikur í kvöld!

Arnar, Eyþór og Taiwo Badmus. MYNDIR: ÓBS
Arnar, Eyþór og Taiwo Badmus. MYNDIR: ÓBS

Það er alltaf líf og fjör á Facebook-síðunni Skín við sólu og fólk duglegt við að pósta myndum og ýmsu efni þangað inn. Nú um helgina var síðuhaldarinn, Ómar Bragi, með símann á lofti og náði meðal annars að mynda liðsmenn Tindastóls í körfunni sem unnu við gluggahreinsanir í haustblíðunni.

„Það er heilmikið fyrirtæki að halda úti öflugu íþróttaliði og það er alls ekki ókeypis. Það er því frábært og til fyrirmyndar að sjá leikmenn m.fl. karla í körfuboltaliði Tindastóls taka til hendinni og þrífa og þvo glugga hjá fyrirtækjum og stofnunum á Króknum og safna þannig fyrir rekstrinum,“ sagði Ómar Bragi í texta með myndunum.

Í kvöld er síðan hægt að styðja strákana við það sem þeir gera allra best – að spila körfubolta – en þá mætast lið Tindastóls og Grindavíkur í Síkinu. Lið Grindvíkinga er með sex stig líkt og Tindastóll en hafa spilað leik meira, lögðu meistaraefnin í Njarðvík í parket í HS Orku-höllinni nú á mánudaginn. Það verður því væntanlega hart barist og stuðningsmenn Stólanna hvattir til að fjölmenna með raddböndin vel upptrekkt og lófana klappklára. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir