Tvíburamet í Árskóla

Tvíburapörin fimm í 1.bekk í Árskóla. Efsta röð frá vinstri: Brynja, Freyja, Daníel Máni og Emil Fannar. Miðröð frá vistri: Aron Sölvi, Almar Logi, Jóel Darri og Aron Elmar. Fremst eru Sara Margrét og Hilmir Óli. MYND GG
Tvíburapörin fimm í 1.bekk í Árskóla. Efsta röð frá vinstri: Brynja, Freyja, Daníel Máni og Emil Fannar. Miðröð frá vistri: Aron Sölvi, Almar Logi, Jóel Darri og Aron Elmar. Fremst eru Sara Margrét og Hilmir Óli. MYND GG

Nú eru skólar byrjaðir og börn sem fædd eru árið 2017 hófu skólagöngu sína í haust á landinu öllu. Í Árskóla stigu 44 börn sín fyrstu skref í grunnskóla og er það eitt og sér kannski ekki í frásögur færandi en það sem er skemmtilegast frá að segja er að í þessum árgangi í skólanum eru fimm tvíburapör.

Þetta þýðir að tíu börn af þessum 44 eru tvíburar. Það er met í Árskóla en við mikla upprifjun hjá kennarahópnum kom þó upp úr dúrnum að í árgangi 1991 voru fjögur tvíburapör.

„Þessi tvíburapör eiga það öll sameiginlegt að það er auðvelt að þekkja börnin í sundur,“ segir Sigríður Stefánsdóttir, einn af umsjónarkennurum krakkanna, en hún er einn af þremur kennurum sem kenna hópnum. Stundum áður hefur verið erfiðara að þekkja tvíburana í skólanum í sundur og man Sigríður eftir einum fæðingarbletti á hálsi sem hægt var að nota til aðgreiningar. Einhverjir krakkanna höfðu á orði að þeim væri oft ruglað saman, nöfnunum víxlað og fleira í þeim dúr. Sara og Hilmir sleppa sennilega best þegar talið berst að svona ruglingi.

Fyrir þá sem hafa áhuga á ættfræði þá fylgir hér mjög einfölduð skagfirsk útskýring á því hver börnin eru og hverra manna. Þetta eru þau Almar Logi og Aron Sölvi (Arnarssynir og Guðrúnar Aspar Halls og Sirrýjar), Daníel Máni og Emil Fannar (Davidssynir og Söndru Guðnýjar sem er barnabarn Stebba Valda og Guðnýjar Björns), Jóel Darri og Aron Elmar (Helgasynir og Freyju Emils og Siggu Jens), Sara Margrét og Hilmir Óli (Atlabörn Ara og Sigrúnarsonar og Stefaníu Sigga Baldurs og Sesselju) og að lokum Brynja og Freyja (Gestsdætur Sigurjónssonar og Svanborgar Guðjóns og Ernu Nielsen).

Í Árskóla eru nú um 160 börn á yngsta stigi (1. til 4. bekkur) en í skólanum öllum eru nemendur um 400 talsins.

- - - - - - - - - - -

UPPFÆRT:

Feyki barst ábending um það að í árgangi 1991 sem hóf grunnskólagöngu sína í Barnaskólanum á Sauðárkróki 1997 byrjuðu fimm tvíburapör einnig. Tæknilega séð er þetta rétt í Feyki því þetta er í fyrsta skipti sem fimm tvíburapör hefja nám í 1. bekk Árskóla því hin pörin voru í Barnaskólanum á Sauðárkóki. Þetta voru þau Stefanía Ósk og Pála Rún Pálsdætur (Palla Stebba Páls og Jóhönnu Birgis. frá Bakka),  Elísa Ósk og Pálína Ósk Ómarsdætur (Ómars og Vilborgar á Gili),  Hjörtur og Sigþór Gunnarssynir (Gunna Steingríms. og Ingu Sigtryggs.), Halla Mjöll og Edda Borg Stefánsdætur (Stebba á Gauksstöðum og Ollu Dísar) og Steinunn og Sveinn Orri Guðmundsbörn. 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir