Viðburðarík aðventuhelgi á Norðurlandi vestra

Frá tendrun ljósa á jólatrénu á Krikjutorgi 2015. Þarna var tréð norskt en að þessu sinni var tréð fellt í Skógarhlíðinni ofan Sauðárkróks og þar með spöruð nokkur mikilvæg kolefnisspor. MYND: ÓAB
Frá tendrun ljósa á jólatrénu á Krikjutorgi 2015. Þarna var tréð norskt en að þessu sinni var tréð fellt í Skógarhlíðinni ofan Sauðárkróks og þar með spöruð nokkur mikilvæg kolefnisspor. MYND: ÓAB

Það er fyrsta helgi í aðventu núna og mikið um að vera á Norðurlandi vestra. Nú á hádegi hefst Jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks í íþróttahúsinu á Króknum og í kjölfarið verður hátíðarstemning þegar ljós verða tendruð á jólatrénu á Kirkjutorgi og hefst athöfnin kl. 15:30.

Á vef Skagafjarðar segir: „Einar Einarsson mun flytja hátíðarávarp, Stjörnukór og Barna- og unglingakór Tónadans munu sjá um söng, Leikfélag Sauðárkróks mun skemmta gestum og dansað verður í kringum jólatréð. Þá hefur einnig heyrst að jólasveinarnir og Grýla og Leppalúði séu á ferðinni. Athöfnin hefst kl. 15:30. Við hvetjum alla Skagfirðinga og gesti til þess að fjölmenna snemma í bæinn og njóta aðventustemningarinnar í gamla bænum. Jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks verður í íþróttahúsinu, verslanir og veitingastaðir verða opnir, jólamarkaðir í Safnaðarheimilinu og Aðalgötu 20, opin vinnustofa í Gúttó og sannkölluð jólastemning á jólatorginu milli Sauðárkróksbakarís og Safnaðarheimilisins.“

Söngur, gaman og gleði á laugardagskvöldi

Þá verður víða stuð í kvöld því í Gránu verður skemmtun í lagi þar sem boðið verður upp á Lúða og létta tónlist. Eins og sagt var frá á Feyki.is í gær þá stefnir Geirmundur Skagfirðingum í fjöldasöng í Miðgarð í kvöld kl. 9 en kappinn var á Græna hattinum á Akureyri fyrir viku og tókst vel til. Í Höfðaborg á Hofsósi ætlar síðan Danssveit Dósa ásamt gestum að halda uppi linnulitlu fjöri. Þar verður húsið opnað kl. 23 og aldurstakmark 18 ár.

Hátíðarmessa á Króknum og Aðventuhátíð á Blönduósi

Á morgun, sunnudag, verður haldið upp á 130 ára vígsluafmæli Sauðárkrókskirkju og 80 ára afmæli Kirkjukórs Sauðárkróks og hefst hátíðarmessa kl. 14. Sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup prédikar og sr. Sigríður Gunnarsdóttir þjónar fyrir altari. Kirkjukórinn syngur undir stjórn Helgu Rósar Indriðadóttur en organisti er Rögnvaldur Valbergsson. Að messu lokinn verða stuttir tónleikar í kirkjunni þar sem flutt verða lög eftir fyrrum organista kirkjunnar. Að tónleikum loknum verður kaffisamsæti í Ljósheimum.

Í Blönduóskirkju verður sameiginleg aðventuhátíð Blönduóssóknar, Þingeyrasóknar, Undirfellssóknar, Svínavatnssóknar og Auðkúlusóknar haldin sunnudaginn 27. nóvember og hefst kl. 20. Fermingarbörn vorsins 2023 taka þátt í stundinni með kertagöngu, lestri og söng. Kynnir er Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson. Sr. Edda Hlíf Hlífarsdóttir þjónar fyrir altari.Ræðumaður kvöldsins er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Eyþór Franzson stýrir kirkkjukórnum sem leiðir safnaðarsöng. Boðið verður upp á kaffi, kakó og smákökur að stund lokinni.

Þá verður aðventustund í setustofu sjúkrahússins á Hvammstanga kl. 14:30 á sunnudag og eru allir velkomnir. Kirkjukórinn flytur jóla- og aðventusöngva undir stjórn Pálínu Fanneyjar organista. Fermingarbörn flytja ritningarlestur og bæn og sóknarprestur hugleiðingu.

Víða opið

Þá má nefna að víða verða verslanir opnar um helgina eða markaðir. Þannig verður jólamarkaður í Árgarði frá 14-17 á sunnudag, Litla sveitabúðin á Brúnastöðum í Fljótum verður opin frá 13-18 bæði laugardag og sunnudag og á Skagaströnd verður jólamarkaður í Fellsborg í dag milli kl. 13-18. Nýjar bækur verða kynntar á bókasafninu á Skagaströnd á milli kl. 14-16 og þar verður boðið upp á kaffi, heitt kakó, djús og smákökur. Að lokum má geta þess að í Skagabúð, norðan Skagastrandar, verður jólabasar sem Kvenfélagið Hekla og Skagabyggð standa fyrir á morgun, sunnudag, á milli 14 og 17. Þar verður ýmislegt handverk og heimilisunnar vörur til sölu.

Hér hefur kannski aðeins verið tæpt á því sem í boði er um helgina og engin leið að koma öllu til skila. Það er í það minnsta um nóg að velja og valkvíðinn einn gæti stoppað fólk í að finna sér gleðistund við hæfi. Gangi ykkur vel og góða helgi!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir