Bolludagsbollur

Bollur með marsipani og súkkulaði. Mynd: https://www.kokaihop.se/
Bollur með marsipani og súkkulaði. Mynd: https://www.kokaihop.se/

Nú er bolluvertíðin í hámarki, bolludagur á mánudaginn og landsmenn munu væntanlega hesthúsa fjölmargar bollur um helgina. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að birta bolluuppskriftir þar sem alnetið er stútfullt af slíkum þessa dagana. Tilbrigðin eru ótalmörg og í sjálfu sér eru því kannski lítil takmörk sett með hverju fylla má bollurnar, bara nota það sem bragðlaukunum líkar og láta hugmyndaflugið ráða.

En hér á eftir fylgja tvær útfærslur, sú fyrri en sænsk marsipanbolla eða semla eins og Svíarnir kalla þær og sú síðari er án eggja og mjólkur sem margir hafa óþol eða ofnæmi fyrir.

Bollur með marsipani

1 dl mjólk
50 g pressuger (eða 1 bréf þurrger)
150 g smjör við stofuhita
1 egg
1 dl sykur
6½ dl hveiti

Fylling:
150 g marsípan
50 g smjör við stofuhita
1½ dl sykur

Ofan á:
150 g suðusúkkulaði

Aðferð:
Hitið mjólkina upp í 37 gráður og leysið gerið upp í henni. Blandið saman hveiti (geymið hluta þess til að hnoða með), smjöri, eggi og sykri og bætið mjólkinni út í. Hnoðið, breiðið klút yfir skálina og látið svo hefast í klukkutíma.
Meðan deigið hefast er marsipanið í fyllinguna mulið niður og blandað saman við smjörið og sykurinn.
Þegar deigið hefur hefast er því skipt í tvennt og rúllað upp. Hverjum hluta skipt í sex parta og marsipanfylling sett á hvern fyrir sig.  Teygið deigið yfir fyllinguna svo hún renni ekki út og mótið svo bollur. Leggið þær með samskeytin niður á plötu, breiðið yfir og látið hefast aftur í 40 mínútur.  
Bakið í miðjum ofni við 225°C í 10 mínútur. Breiðið stykki yfir og látið kólna.
Bræðið súkkulaði og setjið á toppinn á hverri bollu.

Bollur án eggja og mjólkur

(Deigið hentar líka vel í venjulegar hveitibrauðsbollur en þá er sykurinn minnkaður í 1 tsk. og saltið aukið í 2 tsk.)
 

50 g pressuger eða 1 bréf þurrger
2 dl sykur
1 tsk. salt
2 tsk. kardimommur
2 dl olía (ath. tegund ef um ofnæmi er að ræða og ekki nota bragðsterka olíu)
900 g hveiti
6 dl vatn 37°C (mjólk eða undanrenna fyrir þá sem þola)

Aðferð:
Setjið vökvann í skál og pressugerið út í. Stráið smávegis af sykrinum yfir. Látið freyða.
Setjið hveiti, kardimommur og sykur út í og hnoðið. Bætið olíunni við og hnoðið vel. Látið lyfta sér þar til deigið hefur tvöfaldast að rúmmáli. Skiptið í bollur og látið lyfta sér aftur. Penslið með bræddu smjöri eða smjörlíki ef vill.
Bakið við 210°C í um það bil 12-15 mínútur. Setjið þeyttan gervirjóma eða rjóma inn í ásamt öðru því sem tilheyrir rjómabollum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir