Er lélegur kokkur að mati strákanna minna

Ragnheiður Jóna matgæðingur
Ragnheiður Jóna matgæðingur

Matgæðingur í tbl 35 í Feyki var hún Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, en hún tók við þeirri stöðu þann 15. ágúst 2019. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Einnig starfaði hún í tíu ár hjá Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, sem menningarfulltrúi og verkefnastjóri uppbyggingarsjóðs.

Það kom vel á vondan þegar Jenny skoraði á mig sem næsta matgæðing því synir mínir hafa stundum sagt að ég sé lélegur kokkur en þeir mega eiga það að þeir segja líka að matreiðsluhæfileikar mínir hafi skánað með árunum. Í ljósi þess þá er best að leita í smiðju yngri sonarins sem er mjög góður kokkur. Þessa uppskrift bjó  hann til fyrir Gestgjafann og smakkast hún sérlega vel,“ segir Ragnheiður Jóna.

RÉTTUR 1

Bruschetta með kindafille og karmelliseruðum lauk

Karmelluseraður laukur

4 laukar

1 msk. smjör

1 tsk. salt

2 tsk. sykur

Aðferð:

Skerið laukinn í strimla og steikið á pönnu upp úr smjöri á miðlungshita. Bætið salti og sykri saman við og steikið laukinn þar til hann verður gullinbrúnn, eða í um 45 mín. Setjið til hliðar.

600-700 g kindafille.

Aðferð:

Saltið og piprið kjötið, steikið á pönnu við háan hita eða þar til kjarnhitastigið er kringum 55° C ( eða í u.þ.b. 2 mín á hvorri hlið). Leyfið kjötinu að hvíla í 5 mín. eða svo.

Sósa:

150 ml rauðvín

4-5 msk. bláberjasulta

Aðferð:

Setjið rauðvínið á pönnu og leyfið því að sjóða aðeins niður. Bætið bláberjasultunni saman við og hitið í smá stund. Það  má bæta ferskum bláberjum við ef þau eru til.

Samsetning

4 sneiðar súrdeigsbrauð

1-2 msk. ólífuolía

4 kúfaðar msk. mjúkur geitaostur

Aðferð:

Steikið brauðið á pönnu upp úr ólífuolíunni á báðum hliðum. Setjið á disk og smyrjið vel af geitaostinum yfir hverja sneið. Setjið laukinn yfir ostinn og niðurskorið kjötið þar ofan á. Endið á að setja um 2 tsk. af rauðvínsbláberjasósunni yfir kjötið.

RÉTTUR 2

Hakkréttur með döðlum og beikoni

Þessi réttur hefur fengið góða einkunn hjá fjölskyldunni og gestir hafa ekki kvartað.  Í uppskriftinni er nautahakk en ég nota oft hrossahakk og finnst það ívið betra.

Uppskrift:

600-700 gr nautahakk/hrossahakk

½ lítill laukur, fínhakkaður

1 egg

½ dl brauðmylsna

½ dl mjólk

salt og pipar

annað krydd eftir smekk

180 gr beikon, skorið í bita

1 meðalstór rauðlaukur, saxaður smátt

120 gr döðlur, saxaðar fremur smátt

180 gr fetaostur (fetaostakubbur)

salt og pipar

chiliflögur

1 dós tómatar í dós (u.þ.b. 411 g)

1 1/2 msk tómatmauk

1 1/2 tsk paprikukrydd

chili krydd eða annað gott krydd

Aðferð:

Ofn hitaður í 200 gráður. Laukurinn steiktur á pönnu þar til hann er orðinn mjúkur. Þá er hann veiddur af pönnunni og settur saman við hakkið, eggið, brauðmylsnuna, mjólk og krydd, allt blandað vel saman. Helmingurinn af kjötblöndunni er settur ofan í smurt eldfast mót og mótað í hleif. Rauf gerð eftir endilöngum hleifnum. Beikonið er því næst steikt á pönnu. Þegar það nálgast að verða stökkt er rauðlauk og döðlum bætt út á pönnuna og allt steikt í 3 mínútur. Að lokum er fetaosturinn mulinn út á pönnuna og öllu blandað saman. Ca. 1/2-1/3 af blöndunni er tekinn af pönnunni og hleifurinn fylltur með henni. Restin af kjötblöndunni er lögð ofan á og hleifurinn mótaður og gerður vel þéttur svo blandan leki ekki út. Gott er að smyrja kjöthleifinn með bræddu smjöri. Því næst er tómötum í dós bætt á pönnuna út í afganginn af döðlu- og beikonblönduna. Þá er tómatmauki, paprikukryddi og chilikryddi bætt út í og leyft að malla í 3-4 mínutur. Að lokum er hellt tómatmaukblöndunni yfir og í kringum kjöthleifinn. Hitað í ofni við 200 gráður í um það bil 25-30 mínútur eða þar til hleifurinn hefur eldast í gegn. Borið fram með t.d. sætkartöflumús og salati.

Sætkartöflumús fyrir fjóra.

300 gr sætar kartöflur

1 dl kókosmjólk

1 tsk. sjávarsalt

1 tsk. rósmarín þurrkað (eða chiliflögur 1/2 tsk.)

Aðferð:

Bakið sætu kartöflunar með hýðinu á í 30-50 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn.  Takið úr ofninum og látið kólna örlítið. Fjarlægið hýðið og maukið í matvinnsluvél. Bætið kókosmjólkinni út í og kryddið.

Eftirréttur

Gott er að hlusta eftir bjölluhljóm, stoppa ísbílinn og ná þar í eftirréttinn.

Ragnheiður Jóna skoraði á Sigríði Ólafsdóttur bónda í Víðidalstungu sem er matgæðingur í tbl 37 sem kom út í vikunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir