Fiskisúpan úr brúðkaupsveislunni og hjónabandssæla á efti

Sonja og Friðrik á brúðkaupsdaginn. Mynd: Gígja Einarsdóttir.
Sonja og Friðrik á brúðkaupsdaginn. Mynd: Gígja Einarsdóttir.

Hjónin Friðrik Már Sigurðsson og Sonja Líndal Þórisdóttir, ábúendur á Lækjamóti í Víðidal, voru matgæðingar vikunnar í 38. tölublaði Feykis árið 2015.

 „Við giftum okkur í Víðidalstungukirkju þann 4. júlí sl. Við áttum yndislegan brúðkaupsdag, þar sem við buðum vinum og ættingjum að njóta hans með okkur. Í veislunni höfðum við fiskisúpu sem vakti mikla lukku og runnu út fleiri lítrar en nokkurn hafði grunað enda fólk svangt eftir að hafa riðið heim úr kirkjunni. Súpunni var mikið hælt og finnst okkur því kjörið að deila hér með lesendum Feykis uppskrift að fiskisúpu sem okkur þykir góð. Þennan dag var líka á boðstólnum afbragðs hjónabandssæla. Við látum einnig uppskriftina af henni fylgja með.“

Aðalréttur
Fiskisúpa

4 gulrætur
2 laukar
1 sellerístöngull
1 paprika
nóg af smjöri til að steikja
ríflegt af timían
3-4 stk lárviðarlauf
3-4 dl hvítvín
1½ l   fiskisoð
tæplega ein dós tómatpúrre
3-4 msk mangó chutney
5 dl rjómi
ljós jafnari til að þétta áferðina
600-700 g af þorski, laxi eða löngu 

Aðferð:
Skerið grænmetið smátt og steikið í smjörinu ásamt timían, látið örlítið malla og meyrna. Hellið því næst hvítvíninu yfir og sjóðið í smá stund áður en fisksoðinu er bætt saman við. Bætið tómatpúrre og mangó chutney við og saltið og piprið eftir smekk. Bætið  rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp. Skerið fiskinn í góða munnbita og jafnið súpuna örlítið áður en honum er bætt saman við. Súpan er því næst látin malla á lágum hita í 2 mínútur eftir að fiskinum hefur verið bætt í áður en hún er borin fram. Ef um veislu er að ræða þar sem fiskurinn þarf að halda sér vel er langa hentugasti fiskurinn.

 

Eftirréttur
Hjónabandssæla 

2½ bolli hveiti
3 bollar haframjöl
2 bollar púðursykur
1 tsk lyftiduft
3 tsk natron
smá salt
1 egg
250 g lint smjör
rabbarbarasulta 

Aðferð:
Þurrefnunum er blandað saman (hveiti, haframjöli, púðursykri, lyftidufti og natroni). Linu smjöri og eggi bætt út í og hrært. Um það bil ⅔ hluta af deiginu er þrýst mjög vel í botninn, því næst kemur lag af rabbarbarasultu og restin af deiginu er síðan mulin ofan á. Hjónabandssælan er bökuð á blæstri við 175°C í um það bil 25-30 mínútur eða þar til hún er orðin fallega gullinbrún.  

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir