Fljótlegur svartfugl og agalega góð desertsósa

Stefán og Sigríður. Mynd úr einkasafni.
Stefán og Sigríður. Mynd úr einkasafni.

„Einföld og fljótleg eldamennska hefur í gegnum tíðina verið mest í uppáhaldi á heimilinu. Að vísu er minn gamli að koma sterkur inn, sérstaklega ef hann hefur veitt það sem á að elda, þá er tekinn tími og sönglað meðan á eldun stendur. Í tilefni af áskorun úr næsta hreppi þá verður boðið upp á þríréttað, takk fyrir pent, en samt einfalt og fljótlegt,“ sagði Sigríður Gestsdóttir  enhún og maður hennar, Stefán Jósefsson voru matgæðingar vikunnar í 36. tölublaði Feykis árið 2012.

Forréttur
Rækjukokteill

200-300 g góð rækja , stór eða smá
100-150 g majones, má vera létt
2-3 msk tómatsósa
1-2 tsk sinnep, helst dijon
2 dl rjómi, þeyttur
1 sítróna 

Aðferð:
Í forrétt höfum við rækjukokteil sem er bara alveg spari. Við tökum tómatsósu, majones, sinnep og nokkra dropa af sítrónusafa og hrærum vel saman, síðan hrærum við rjómanum saman við, þá á að vera komin létt sósa, því næst eru rækjurnar þerraðar vel og settar út í. Geymt í u.þ.b. klukkutíma í ísskápnum og borið fram með ristuðu brauði. 

Aðalréttur
Svartfugl

4 svartfuglsbringur
villijurtakrydd frá Pottagöldrum
salt og pipar
½ l rjómi
einiber
1-2 tsk villibráðarkraftur 

Aðferð:
Aðalrétturinn er fljótlegur svartfugl. Svartfuglsbringurnar eru þerraðar vel og barðar aðeins og kryddaðar með villijurtakryddi (Pottagaldra), salti og pipar. Þá eru þær steiktar á vel heitri pönnu upp úr olíu eða smjöri. Því næst er rjómanum hellt yfir og bringunum snúið öðru hvoru í um 5 mínútur. Þá eru þær færðar uppá fat meðan sósan er útbúin. Út á pönnuna eru sett nokkur einiber og villibráðarkraftur og hrært í á meðan þykknar.

Með þessu eru nýuppteknar kartöflur, rifin epli í rjóma, rauðkál, maísbaunir og uppáhalds hrásalatið borið á borð.

Eftirréttur
Ávextir með agalega góðri sósu

2 eggjarauður
1½ dl flórsykur
1 peli rjómi, þeyttur
appelsínusafi
ávextir að eigin vali, niðurskornir 

Aðferð:
Eggjarauður þeyttar með flórsykri. Rjómi þeyttur og hrærður saman við eggjahræruna, að lokum er appelsínusafi kreistur út í. Þetta er agalega góð sósa til að bera fram með niðurskornum ávöxtum. Það er hægt að nota hvaða ávexti sem er. 

Vonandi bragðast þetta vel en umfram allt skemmtið ykkur vel!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir