Grillað folaldafille með fíneríi

Ragnar Heiðar matgæðingur
Ragnar Heiðar matgæðingur

Matgæðingur í tbl 3 á þessu ári var Ragnar Heiðar Ólafsson, sonur Ólafs Jónssonar og Sigurbjargar Rögnvaldsdóttur sem eru oft kennd við Helluland í Hegranesinu. Ragnar býr á Hvammstanga og er umsjónamaður Félagsheimilisins í þeim fallega bæ.

„Þegar kemur að því að elda hugsa ég alltaf stórt og flókið sem kemur bragðlaukunum á óvart, enda alinn upp af kokk og ætti ekkert annað að koma á óvart. Folaldakjöt er í matinn í hverri viku á mínu heimili enda mitt uppáhald og er þetta auðveld aðferð sem allir eiga að ráða við,“ segir Ragnar Heiðar.

AÐALRÉTTUR
Grillað folaldafille með ofnbökuðu grænmeti, sætum kartöflum og piparostasósu

    500 g folaldafille
    olía
    salt
    pipar
    blóðberg og bláber (notað í mareneringu)

Aðferð: Blandið saman í skál, salti, pipar, laufunum af blóðberginu og stappið bláberunum saman við. Ég hafði einnig greinarnar af blóð-berginu með. Setjið u.þ.b.. 2-3 msk. af olíu saman við og hyljið kjötið. Mér finnst best þegar ég marinera kjöt að hafa það að lágmarki í 2-3 tíma á eldhúsborði, oft hef ég það lengur ef tími gefst til. Einnig sný ég kjötinu nokkrum sinnum við er það liggur í mareneringu. Ég grillaði kjötið, byrjaði á að loka kjötinu á öllum hliðum. Því næst færði ég það upp á efri grind grillsins og lét það vera þar í u.þ.b. tíu mínútur. Ég grilla kjötið þannig að það sé medium/rare.

Ofnbakað grænmeti:
    2-3 gulrætur, skornar langsum
    ½ brokkolí haus
    1 laukur
    7 hvítlauksgeirar
    4 stilkar sellerý
    1 fersk rauðbeða
    olía
    salt og pipar

Aðferð: Skar allt niður og raðaði í eldfast fat, kryddaði og setti smá olíu yfir. Bakist við 150°C í 40 mín.

Piparostasósa:
    500 ml matreiðslurjómi
    ½ piparostur – eða meiri, smekksatriði
    ½ kjúklingateningur

Aðferð: Bræðið piparostinn í matreiðslurjómanum við vægan hita. Bætið svo kjúklingateningi saman við og hrærið vel í sósunni.

Ofnbakar sætar kartöflur:
    2 sætar kartöflur, frekar stórar
    4-5 msk. olífuolía
    1 msk. púðursykur
    1 og 1/2 msk. paprikuduft
    1/2 tsk. malaður svartur pipar
    1 tsk. laukduft
    1 tsk. hvítlauksduft
    1 tsk. kjúklingakrydd
    1/2 tsk. chiliduft
    smá cayenne pipar

Aðferð: Kartöflurnar eru flysjaðar og skornar í litla bita. Öllu blandað saman og sett í eldfast mót og inn í 200-220°C heitan ofn í 20-25 mín-útur. Tilbúið! Athugið að ef bitarnir eru stærri þarf að hafa þetta lengur í ofninum eða 35-40 mínútur.

EFTIRRÉTTUR
Einn fljótlegur
    500 ml rjómi
    1 lítil dós KEA vanilluskyr
    1 tilbúinn brúnn marengs botn
    ávextir, ber eða nammi sem þér finnst gott

Aðferð: Marengsbotninn er mul-inn niður í fat. Rjóminn er þeyttur og vanilluskyrið hrært út í rjómann með sleikju. Setjið ávextina, berin og nammið út í blönduna í því magni sem þið viljið. Betra er að byrja á því að setja lítið í einu og hræra með sleikjunni, setja svo meira ef vill. Ég nota oftast jarðarber, bláber, kókosbollu og súkkulaðirúsínur. Rjómablandan er svo lögð yfir marengsbotninn og skreytt að vild. Gott er að leyfa réttinum að standa smá stund áður en hann er borinn fram til þess að marengsbotninn blotni svolítið.

Verði ykkur að góðu

Sigga sigga sigga

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir