Humarhalar, saltfiskur að hætti Hawaiibúa og ávaxtaeftirréttur

Matgæðingarnir Brynhildur og Ómar.
Matgæðingarnir Brynhildur og Ómar.

Matgæðingar í 30. tölublaði Feykis sumarið 2018 eru Brynhildur Sigtryggsdóttir og Ómar Kjartansson á Sauðárkróki. Þau hjónin ættu flestir Skagfirðingar að kannast við en þau ráku Blóma- og gjafavöruverslunina á Króknum um árabil og einnig reka þau ÓK gámaþjónustu sem á móttökustöðina Flokku.

Þau buðu upp á þrjá girnilega rétti: humarforrétt, eftirrétt með ferskum berjum og spennandi saltfiskrétt. „Við höfum mjög oft eldað þennan saltfiskrétt þegar við fáum gesti til okkar og hann hefur alltaf slegið í gegn. Rétturinn heitir Saltfiskur að hætti Hawaiibúa og er í bókinni Suðrænir saltfiskréttir (gefin út 1992) en er því miður ófáanleg nú. Saltfiskurinn ( útvatnaður til steikingar ) fæst frosinn í öllum matvöruverslunum,“ segir Binný. 

FORRÉTTUR
Humarhalar í ofni

6 humarhalar sem eru teknir úr skelinni og hreinsaðir
6 brauðsneiðar (ekki hafa grófkornabrauð) 

Aðferð:
Skerið skorpuna af og fletjið hverja sneið vel út með kökukefli. Setjið sítrónupipar annars vegar á brauðsneiðarnar og humarhala á hverja sneið. Þessu er rúllað upp og sárið látið snúa niður.
Bræðið kryddsmjör og penslið á rúllurnar.
Bakað í ofni við 200 gráður í 15-20 mínútur eða þar til brauðið hefur fengið smá lit og er orðið stökkt.
Borðað með tómötum, agúrku og sítrónu sem gott er að kreista yfir rúllurnar. 

AÐALRÉTTUR
Saltfiskur að hætti Hawaiibúa

8 saltfiskbitar (sem eru sérútvatnaðir fyrir steikingar)
olía til steikingar og nota vel af henni
hveiti (ekkert krydd)
1 laukur
4-5 ananashringir 

Aðferð:
Byrjið á því að velta fiskbitunum upp úr hveitinu og steikið í mikilli olíu þar til þeir verða gullinbrúnir og steikt í gegn. Geymið á steikarafati.
Laukurinn skorinn niður í hringi og velt upp úr hveiti. Steikt vel eða þar til laukurinn er orðinn gullinn. Sett ofan á fiskinn. Ananashringjunum velt upp úr hveiti og steiktir - settir ofan á laukinn.
Sett í ofn við 150 gráður C. 

4-6 hvítlauksrif skorin niður í þunnar sneiðar og steikt í olíu. Setjið 1-2 msk. steinselju út á. Hafið vel af olíu á pönnunni. Takið pönnuna af eldavélinni og setjið u.þ.b. 2 msk. af hvítvínsediki út á pönnuna. Þetta kraumar svolítið og sett strax yfir fiskinn.
Með þessu er best að hafa soðnar kartöflur. 

EFTIRRÉTTUR
Ferskir ávextir með serrý- makkarónusósu

Ferskir ávextir settir í skál t.d. bláber, jarðaber og hvað eina sem manni dettur í hug. 

Sósan:

1 dós sýrður rjómi (10%)
6-8 makkarónukökur, muldar smátt út í
serrý eftir smekk 

Allt hrært saman og geymt í kæli í minnst 30 mínútur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir