„Indverskur matur í miklu uppáhaldi"

Unnur Valborg og Alfreð, ásamt yngri syni sínum, á eyjunni Santorini í gríska eyjahafinu.
Unnur Valborg og Alfreð, ásamt yngri syni sínum, á eyjunni Santorini í gríska eyjahafinu.

Unnur Valborg Hilmarsdóttir og Alfreð Alfreðsson á Hvammstanga voru matgæðingar vikunnar í 9. tölublaði Feykis árið 2015: 

„Við hjónin höfum afskaplega gaman af því að elda og borða góðan mat. Indverskur matur er í miklu uppáhaldi og þegar við eldum hann þá viljum við gera sem mest frá grunni sem tekur stundum dágóðan tíma en er alveg afskaplega gott,“ segja þau. „Þegar við eldum þá erum við sjaldnast með forrétt, höfum frekar fleiri tegundir af meðlæti. Það er líklega bara á jólum og áramótum sem við erum með forrétti, og örfá önnur hátíðleg tækifæri.
Við eigum nokkrar uppáhalds indverskar uppskriftir sem við höfum sankað að okkur í gegnum tíðina. Máltíðin sem við deilum með lesendum Feykis er í sérstöku uppáhaldi og er elduð reglulega á heimilinu. Indverskur kjúklingur með einföldu meðlæti. Uppskriftin er komin frá vinkonu okkar, Svanbjörgu Helenu Jónsdóttur, sem að okkar mati er Martha Stewart okkar Íslendinga. Frábær kokkur sem nær að galdra fram kræsingar nánast fyrirhafnarlaust. Þessi máltíð var ein sú fyrsta sem ég eldaði fyrir Alfreð þegar við vorum að kynnast á sínum tíma og hefur líklega orðið til þess að hann fékk á mér matarást sem hefur ekki dofnað síðan.

Fyrir þá sem ekki hafa eldað indverska rétti þá er vert að taka fram að þó að innihaldsefnin séu mörg þá er matseldin einföld. Aðal málið er að koma sér upp nokkrum grunn tegundum af kryddum og þá er fólk fært í flestan sjó.“ 

Aðalréttur
Indversk kjúklingamáltíð

4-6 kjúklingabringur, (ein bringa á mann) skornar í þrjá nokkuð jafna hluta þvert á lengdina
2 tsk garam masala krydd
2 tsk kórianderduft
¾ tsk chilliduft
2 tsk, ferskt engifer, rifið
3-4 hvítlauksrif, pressuð
2 msk hvítvínsedik
70 g tómat paste
1 dós hrein jógúrt 

Aðferð:
Öllu blandað saman og kjúklingurinn látinn marinerast í nokkrar klukkustundir (best ef maður nær að marinera hann yfir nótt). 

80 g smjör
1 stór laukur, saxaður
1 tsk salt
3 tsk paprikuduft
425 g Hunts tomato sauce í dós
¾ b kjúklingasoð
1 b sýrður rjómi eða jógúrt 

Aðferð:
Smjörið hitað á stórri pönnu og laukurinn settur út í. Steikt þar til laukurinn er orðinn ljósbrúnn. Þá er kjúklingnum og marineringunni bætt út í og steikt í 5 mínútur. Þá er afganginum af hráefninu bætt út á pönnuna og látið malla í 10-15 mín eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Varist að elda hann of mikið, hann á að vera mjúkur. Saxið u.þ.b. lúku af fersku kóriander og stráið yfir réttinn þegar hann er borinn fram. 

Meðlæti I
Karrý og mangó kartöflur
8-10 soðnar kartöflur skornar í teninga
2 tsk Eðalkarrý frá pottagöldrum
2 msk olía
lítil dós kotasæla
½ krús mango chutney

Aðferð:
Kartöflunar steiktar í olíu og karrý í smá stund. Kotasæla og mango chutney sett saman við. Blandan sett í eldfast móti og inn í ofn í 20 mínútur á 180 gráður (líka gott að setja soðnar gulrætur og kartöflur til helminga í þennan rétt). 

Meðlæti II
Græn sósa

Bunki af fersku kóriander
½ - 1 dós jógúrt
1 tsk mangó chutney
1 dós 10% sýrður rjómi 

Aðferð:
Allt nema sýrði rjóminn sett í blandara og blandað þar til sósan er orðin fallega græn. Hrært saman við eina dós af sýrðum rjóma. Sósan mildar sterkt bragðið af kjúklingamareneringunni og er nauðsynleg með.
Þetta er svo allt saman borið fram með hrísgrjónum og naan brauði. Naan brauðið má auðveldlega kaupa út úr búð, hægt er að fá góð naanbrauð sem er hægt að pensla með olíu og strá kryddi yfir og hita í ofni. Það er hins vegar alltaf betra að gera sitt eigið. Ég hef prófað nokkrar naanbrauð uppskriftir en þessi er úr Gestgjafanum frá því fyrir nokkrum árum, örlítið breytt. 

Meðlæti III
Naan-brauð
1 ½ tsk þurrger
1 tsk salt
1 tsk sykur
1 tsk lyftiduft
2 b hveiti
1 ½ dl olía
1 egg
4 msk hrein jógúrt 

Hvítlaukssmjör til penslunar:
200 g smjör
1 msk pressaður hvítlaukur
Lúka af söxuðum kóríander (fyrir þá sem ekki eru hrifnir af kóriander má sleppa því og nota steinselju eða hvaða indverskt krydd sem er eða jafnvel salt). 

Aðferð:
Velgið mjólkina og leysið gerið upp í henni. Blandið saman þurrefnum, mjólkinni með gerinu, olíunni, egginu og jógúrtinni. Hnoðið vel og látið lyfta sér í 30 mínútur. Mótið brauðin, hægt að hafa lítil „eitt á mann“ eða stór svo hver og einn rífi sér bút, og látið lyfta sér aftur í 15 mínútur. Skerið rákir í deigið og penslið með hvítlaukssmjörinu. Grillið ofarlega í ofni í 2-3 mínútur hvoru megin og berið fram volg. Má einnig grilla á útigrilli en þá þarf að fylgjast mjög vel með að brauðið brenni ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir