Lærisneiðar með partýkartöflum

Kristín og Þórarinn á Staðarbakka voru matgæðingar Feykis í júlí 2013.
Kristín og Þórarinn á Staðarbakka voru matgæðingar Feykis í júlí 2013.

Kristín Ólafsdóttir og Þórarinn Óli Rafnsson voru matgæðingar í 26. tölublaði ársins 2013. Eins og árstíminn gaf tilefni til buðu þau upp á grillmat og ís á eftir.
„Við hjónin erum búsett á Staðarbakka í Miðfirði ásamt tveimur börnum, Heiðari Erni, 18 ára, og Ingu Þórey 13 ára. Þórarinn starfar hjá Tengli á Hvammstanga ásamt því að sinna veiðileiðsögn í Miðfjarðará á sumrin. Kristín starfar sem fulltrúi hjá Fæðingarorlofssjóði. Við eigum einnig nokkrar kindur, hesta, hundinn Gróða frá Heggsstöðum og kisuna Frú Marsibil frá Stóru-Borg. „Sumarið er tíminn“ segir í laginu og þá reynum við að grilla eins oft og við getum. Við ætlum að bjóða upp á þurrkryddaðar lærissneiðar með partý-kartöflum og grilluðu grænmeti ásamt pistasíuís með karamellusósu í eftirrétt."

Þurrkryddaðar lærissneiðar
Kryddblanda:

3 msk Miðjarðarhafsblanda (Prima)
3 msk steikar- og grillkrydd (Prima)
1 og 1/2 msk sítrónupipar (Prima)
1 msk. Maldon salt

Veltið sneiðunum upp úr blöndunni og nuddið vel í kjötið. Best að geyma svo í kæli í 4 - 6 tíma.
Grillað eftir smekk.

Partý-kartöflur

1 stk stór sæt kartafla skorin í teninga
2 bökunarkartöflur skornar í teninga
1 kúrbítur (zuccini) skorinn í teninga
Sett í eldfast mót, smá ólífuolíu hellt yfir ásamt smá sítrónupipar og smá salti. Látið bakast í ofni við 180°c í 25 - 30 mínútur.

Grillað grænmeti

Búið til álpappírsskál (u.þ.b. jafnstór og tveir lófar). Takið hnefafylli af graslauk og klippið niður í skálina.

1 stk gul paprika skorin niður í strimla
6-8 stk sveppir skornir niður í hæfilega bita
2 msk íslenskt smjör
Smá sítrónupipar og salt

Allt sett í skálina og henni lokað (kreist saman að ofan) og skellt á grillið í 10-12 mínútur.

Pistasíuís með karamellusósu

1 l vanilluís
1 poki pistasíuhnetur

Hneturnar maukaðar í matvinnsluvél og hrærðar saman við ísinn.

Karamellusósa:

120 g smjör
115  g púðursykur
½ tsk vanilludropar
¼ bolli rjómi

Allt sett saman í pott og suðan látin koma upp, lækka hitann og láta malla í ca 2-3 mín og hrært í á meðan.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir