Reyktur lax í forrétt og grillaðar kjúklingabringur með kartöflumús.

Matgæðingarnir Eiríkur og Jóhanna. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Eiríkur og Jóhanna. Mynd úr einkasafni.

„Hér kemur uppskriftin okkar Eiríks sem við elskum, svo einföld og fljótleg,“ segir Jóhanna Sigurjónsdóttir en hún og Eiríkur Lýðsson frá Skagaströnd voru matgæðingar vikunnar í 26. tbl. Feykis 2015. 

„Hjá mörgum er siður að hafa pizzu á föstudögum en hjá okkur er kjúklingabringur í Gaj P. Við grillum yfirleitt bringurnar á útigrilli en ef það snjóar mikið þá bara steikjum við þær á pönnu. 

Forréttur
Ristað brauð með reyktum laxi og hunangssinnepssósu
brauð
reyktur lax 

Sósa:
3 tsk mayjónes
1 tsk hunang
1 tsk sinnep 

Aðferð:
Hrærið öllu sem á að fara í sósuna vel saman, ristið brauðið, setjið lax ofan á og sósuna þar á eftir. 

Aðalréttur
Grillaðar eða steiktar kjúklingabringur 
2-10 kjúklingabringur (fer eftir hve margir eru í mat)
BBQ grillsósa frá Gaj P 

Aðferð:
Bringurnar settar í grillsósuna og látnar vera þar um 15-30 mín. Þá eru þær grillaðar eða steiktar á pönnu. 

Kartöflumús
¾ gullauga
¼ sætar kartöflur
½ - 1 piparostur
smá matreiðslurjómi eða mjólk 

Ferskt salat:
Iceberg (skorið í ræmur)
paprika rauð
rauðlaukur
vínber
fetaostur 

Aðferð:
Kartöflurnar eru skornar í teninga og suðan látin koma upp, sjóðið á meðan er verið að steikja eða grilla bringurnar. Oft er nóg að láta suðuna koma upp og leyfa kartöflunum að vera í vatninu á meðan verið er að elda bringurnar en það  fer eftir stærð teninganna (hjá okkur eru bitarnir rúmlega sykurmoli á stærð).
Þegar karöflurnar eru tilbúnar er piparosturinn skorinn í bita og settur út í pottinn (þá er búið að hella vatninu af) og látinn vera í smástund eða á meðan er verið að  græja salat/grænmeti síðan eru kartöflurnar stappaðar eða hrærðar með smá matarrjóma til að bleyta smá í þeim.
Borið fram með hvítlaukssósu.

 Verði ykkur að góðu!

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir