Rabb-a-babb 135: Róbert Daníel

Nafn: Róbert Daníel Jónsson.
Árgangur: 1975.
Fjölskylduhagir: Ég er giftur Ernu Björgu Jónmundsdóttur sem er deildarstjóri hjá Sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra.  Saman eigum við þrjú börn, Daníel Mána (15 ára), Ísól Kötlu (12 ára) og Óskar Sólberg 6 ára.
Búseta: Blönduós síðustu 11 ár.
Hvar ertu upp alinn:  Ég er alinn upp í Bolungarvík sem var alveg frábært og gerði mér gott held ég bara.  Foreldrar mínir fluttu þangað með okkur fjölskylduna þegar ég var 6 ára.
Starf: Forstöðumaður í Íþróttamiðstöðin Blönduósi.  
Hvað er í deiglunni: Það er alltaf eitthvað í deiglunni, ég er áhugaljósmyndari og er að fara af stað með ljósmyndasýningu í haust sem heitir Náttúran í Austur Húnavatnssýslu svo eitthvað sé nefnt.

Hvernig nemandi varstu?  Uppátækjasamur og eflaust verið smá erfiður.  En líka feiminn en mér hefur aldrei liðið vel í miklum fjölda.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Fermingarsystkini mín.  Við höfum verið dugleg að hittast reglulega síðan á fermingunni.  

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?  Ég man ekki eftir neinu einu, það var alltaf að breytast, keyra steypubíl, bóndi, íþróttamaður, fuglaskoðari svo eitthvað sé nefnt.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Matchbox bílar voru mjög vinsælir hjá mér.

Besti ilmurinn? Lyktin af Íslandi þegar umhverfið okkar er í blóma yfir há sumarið.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið?   I'm Too Sexy með Right Said Fred.  Keyrði um á sægrænum Hyundai Pony nýjum úr kassanum.   Ef ég man rétt var bílnumerið ME – 699. 

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Ekki spurning,  lagið  með Alphaville, Forever Young. Það hentar minni tóntegund.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ekki neitt sem ég má ekki missa af, er mest fyrir að vera minn eigin sjónvarpsstjóri.

Besta bíómyndin?  Margar sem geta verið bestar að mínu mati, ef ég á að nefna eitthvað held ég mikið upp á The Godfather seríuna og svo finnst mér ævintýramyndir skemmtilegar og fer þá The Lord of the Rings myndirnar klárlega þarna upp með bestu myndum. 

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Michael Jordan er besti íþróttamaður allra tíma og er einnig góð fyrirmynd.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég þríf manna best og er líka góður í að tuða yfir því hvað hinir gera það illa.   Það þarf einhver að sjá um gæðastjórnun.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Ekkert sérstakt, ég er ágætur en konan mín er snillingur í eldhúsinu.

Hættulegasta helgarnammið? Freyju Djúpur er svakalega hættulega góðar.  Þú klárar ALLTAF pokann.!!!

Hvernig er eggið best? Spælt klárlega.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  Ég er að mestu leiti búinn að sættast við sjálfan mig orðinn þetta gamall en það er alltaf eitthvað sem maður vill verða betri í.  Konan og börnin segja að ég geti stundum tuðað í þeim J

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
 Óstundvísi og neikvæðni er svakalega leiðinlegt og eitthvað sem ég þoli illa.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  “Stundum skín sól á hundsrass”

Hver er elsta minningin sem þú átt? Datt í Reykjavíkurtjörn þegar ég var lítill að gefa öndunum. Var að henda brauði og datt fram fyrir mig. Engin hætta á ferð þó, var dreginn strax upp úr tjörninni.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Í dag er það Svampur Sveinsson, mér og yngri stráknum mínum finnst hann mjög fyndinn.


Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Ég hef aldrei getað séð mig fyrir mér sem einhvern annan, get það bara ekki.  Langar heldur ekki að vera frægur. 

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Ég er bara enginn bókamaður og finnst ekki gaman að lesa bækur.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Stundum skín sól á hundsrass, nota ég mikið. 

 Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati?  KlárlegaVigdís Finnbogadóttir, fyrsta konan i heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja.   Maður var svo stoltur af forsetanum sínum á þeim tíma.  Hún stóð sig virkilega vel sem forseti og vann að mörgum mikilvægum málum í sinni tíð fyrir land og þjóð. Skemmtilegt líka að segja frá því að ég bjó í sama húsi og Vigdís og hún passaði mig þegar ég var lítill drengur áður en hún varð forseti.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Mig langar oft að spjalla við mömmu mína en hún dó eftir mikla baráttu við krabbamein árið 2011.  Væri til að knúsa hana aðeins meira, spjalla við hana, fara í göngutúr með henni og borða matinn hennar.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  Ég segi það satt

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
 Ég færi til Liverpool á leik ekki spurning.  Elska borgina, liðið og stuðningsmennina.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Tjald, veiðistöng og eldfæri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir