Rabb-a-babb 174: Gigga

Nafn: Þorgerður Þóra Hlynsdóttir.
Árgangur: 1969.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Árna Halldóri Eðvarðssyni. Á fjögur börn og eitt barnabarn. 
Búseta: Skagaströnd.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Dóttir Sigurlaugar Þóru Hermannsdóttur fóstru, kennara og bankastarfsmanns og Hlyns Tryggvasonar húsasmíðameistara á Blönduósi.
Starf / nám: Menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og er núna í meistaranámi í kennslufræðum. Sé um félagsmiðstöðina Undirheima og kenni smíðar og valgreinar í Höfðaskóla. 
Hvað er í deiglunni: Ljúka náminu og eyða sem mestum tíma með mínum nánustu. 

Hvernig nemandi varstu?  Ég var alveg ágætis nemandi en var algerlega glötuð í stærðfræði.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?  Ég var afskaplega nægjusamur unglingur.  Vildi ekkert vesen á fermingardaginn. Ég saumaði fermingarkjólinn minn sjálf í handavinnutímum og harðneitaði að fara í hárgreiðslu. Mamma fékk góðfúslegt leyfi til að setja í mig tagl og eitt lifandi blóm í það. Ég vildi nú helst ekkert veisluvesen en í þá daga voru fermingarveislurnar ekki eins svakalegar og þær eru núna. Flestir voru með veisluna heima og þannig var það hjá mér. Stórfjölskyldan kom og gladdist með okkur á fermingardaginn. Á þessum tíma var ég að læra á píanó og var að safna mér fyrir einu slíku.  Það var því heljarinnar gleði  með tárum og öllu þegar ég kom heim eftir athöfnina og í stofunni beið píanó sem ég átti alein.  Það fékk ég í fermingargjöf frá foreldrum mínum, bróður og móðurömmu.  En fyrir utan píanóið var einn hlutur sem mig dreymdi um að eignast en það var rafmagnsþeytari.  Ég var því hæstánægð þegar systir hennar mömmu gaf mér einn slíkan.  Ég á hann ennþá og hann virkar vel.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði að verða ballettdansari og hárgreiðslukona. 

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ég átti æðislegt Lundby dúkkuhús og alls konar húsgögn og litla dúkkufjölskyldu sem bjó í því. Það var endalaust hægt að leika sér í þeirri veröld. 

Besti ilmurinn?  Lyktin af nýfæddu barni.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég var nú alæta á tónlist. Þar má nefna Guns´n Roses, Aerosmith, Wham! og Duran Duran, Kiss, Sex pistols og fleira

Hvernig slakarðu á? Mér finnst æðislegt að fara með manninum mínum upp í hesthús og stússast þar. Maður kemur endurnærður heim.  Ég hlusta líka mikið á hljóðbækur.  Svo er nú líka dásamleg þegar elsta dóttir mín kemur með fjölskylduna sína til okkar. Það eru gæðastundir. Annars er ég frekar virk manneskja og slaka ekkert voðalaega mikið á.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Ég horfi ekki mikið á sjónvarp þannig séð en þá aðallega glæpaþætti. Tek kannski eitthvað þáttamaraþon , en þegar ég er ekki að vinna er ég að læra þannig að svoleiðis lúxus gerist ekki oft. 

Besta bíómyndin? Ég er mjög hrifin af frönskum bíómyndum og þar er Daniela frænka í uppáhaldi. Ég hef  líka alltaf elskað myndina Ghost. Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef horft oft á hana. Það er bara svo falleg tilhugsun að ímynda sér að þeir sem eru farnir úr þessari jarðvist séu með manni. 

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Eru þeir ekki allir ágætir greyin. 

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Raða í uppþvottavélina og brjóta saman þvott, engin spurning!

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Ég er ástríðu kokkur og finnst sjúklega gaman að elda. Sósur eru mín sérgrein hugsa ég. 

Hættulegasta helgarnammið? Súkkulaði með piparfylltum appolo lakkrís.

Hvernig er eggið best? Í ommelettu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég er mjög gleymin og svo á ég það til að gera vinnustöðvarnar mínar að skipulögðu kaosi.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Ég þoli nú ýmislegt en smjatt fer veruleg í taugarnar á mér ... og lygar.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Ég á margar uppáhalds tilvitnanir en þessi er ein af uppáhalds: Þegar einar dyr lokast, opnast oft aðrar betri :)

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég held að það sé þegar bróðir minn var nýfæddur og pabbi sýndi mér úr sem hann ætlaði að gefa mömmu. Annars eru minningarnar úr hesthúsinu með fjölskydunni alltaf ljúfar og góðar.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Úff, þetta er erfið spurning. Það væri örugglega gaman að vera Ellen Degeneres og taka eins og einn þátt fyrir hana ;)

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Glerkastalinn er sennilega bók sem hefur haft mest áhrif á mig þar sem hún er byggð á sannsögulegum atburðum úr lífi Jennifer Walls. Líf hennar var ótrúlega erfitt og ég get engan veginn gleymt þessari bók. Einnig hafði bókin Seld mikil áhrif á mig og ég grét úr mér augun þegar ég las hana. 

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ég blóta alveg svakalega mikið, en amma mín sagði samt að þessi orð hefðu ekki verið búin til ef það mætti ekki nota þau, svo ég geri það bara :)

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Manninum mínum og foreldrum mínum.  Þau hafa staðið við bakið á mér í gleði sem sorgum og hreinlega öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur og gert mig að betri manneskju. Samt gæti ég ekki skilið börnin mín, tengdason og barnabarn útundan.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég færi nógu langt til þess að njóta aftur tímans með yngri dóttur minni sem varð bráðkvödd árið 2015 aðeins 17 ára gömul. 

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Hrakfarir og fleira skemmtilegt.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… beinustu leið til Ameríku og þá til New Jersey þar sem ég dvaldi á árum áður.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Vera með uppistand, fara til Bali og búa þar sem sólin skín meiripartinn af árinu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir