64 milljóna króna halli á Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) var haldinn sl. fimmtudag, að þessu sinni í fjarfundi. Helstu niðurstöður rekstrarársins 2019 eru þær að rekstur stofnunarinnar var að mestu í jafnvægi á árinu, en stofnunin var rekin með tæplega 64 milljóna króna halla sem fjármagnaður var með rekstrarafgangi ársins 2018.

Í tilkynningu frá stofnuninni kemur fram að áfram verði unnið að undirbúningi að byggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri sem er nú áætlað að verði fullbúnar árið 2023. Þá hefur verið unnið að því að bæta aðstöðu íbúa á hjúkrunarheimilum og er ákvörðun um byggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík fagnað.

„Við höfum náð að halda rekstraráætlanir undanfarin ár, sem þakka má ómetanlegu framlagi og sveigjanleika starfsfólks HSN. Það er mjög ánægjulegt að við getum haldið áfram uppbyggingu hjúkrunarrýma í umdæminu sem og nýrra heilsugæslustöðva á Akureyri. Þetta mun ekki bara stórefla þjónustu við íbúa á svæðinu heldur vafalítið hjálpa okkur við að laða að nýtt starfsfólk. Á árinu var sett á fót geðheilsuteymi fyrir Norðurland sem er mikið framfaraskref. Strax á síðasta ári sáum við aukningu í rafrænum samskiptum sem er nú ljóst að muni bara aukast. Því vinnum við nú að uppsetningu á búnaði fyrir fjarheilbrigðisþjónustu til að efla þjónustuna enn frekar,” segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.

Að auki kom m.a. eftirfarandi fram á ársfundinum:

-           Erfiðlega hefur gengið að ráða í stöður heimilislækna, þá sérlega á Akureyri. Það horfir nú til betri vegar meðal annars vegna góðrar aðsóknar í sérnám í heimilislækningum. 
-           Einnig hefur reynst erfitt að fá hjúkrunarfræðinga í afleysingar og að manna ákveðnar starfseiningar innan HSN, en víða er þó mönnun nokkuð góð og í samræmi við heimildir.
-           Starfsemi hjúkrunarmóttöku á Akureyri var styrkt á árinu. Þá var bætt við stöðugildum til að sinna heilsueflandi heimsóknum fyrir aldraða á öllu þjónustusvæðinu.
-           Vinna hófst við stefnumótun HSN með utanaðkomandi ráðgjafa til að vinna með starfsfólki að nýjum áherslum. Ný stefna var kynnt starfsfólki í kjölfar ársfundarins ásamt aðgerðaáætlun.
-           Mikil áhersla hefur verið lögð á símenntun hjá HSN með samstarfi við símenntunarstöðvar á starfssvæðinu.
-           Unnið er að uppsetningu á búnaði fyrir fjarheilbrigðisþjónustu. Sjá má töluverða aukningu í samskiptum í gegnum Heilsuveru á milli ára.
-           Upplýsingatæknimál verða ofarlega á baugi. Unnið er að innleiðingu á lyfjafyrirmæla- og  gjafaskráningarkerfi sem og nýju símkerfi innan HSN.
-           Stofnaður var faghópur um lífsstíls- og sykursýkimóttökur sem hefur það hlutverk að taka þátt í að byggja upp og samræma heilsueflandi móttökur á HSN með sérstaka áherslu á sykursýki. Fyrir eru starfandi fjölmargir faghópar sem starfa þvert á stofnunina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir