Álfhildur Leifsdóttir fær Apple frumkvöðlaviðurkenningu - Í hópi framúrskarandi kennara

„Það var stoltur kennari sem tók við nafnbótinni Apple Distinguished Educator hér í Hollandi á ADE Institute 2019, ein af 170 kennurum frá 29 löndum EIMEA, valin af Apple úr þúsundum umsækjenda,“ skrifar Álfhildur Leifsdóttir, kennari á Sauðárkróki, á Facebook-síðu sína í vikunni. Hún segir ávinninginn vera tengslanet framúrskarandi kennara um allan heim sem sé algjörlega ómetanlegt. „Það eru spennandi dagar framundan og vonandi komum við þrjú ADE með lærdóm í farteskinu til að deila með öðrum kennurum heima. Takk þið sem hafið greitt götu mína til að ná þessu markmiði.“

Í tilefni þessa áfanga Álfhildar er tilvalið að birta viðtal við hana sem Feykir birti í 15. tbl. þessa árs.

Álfhildur Leifsdóttir, kennari á Sauðárkróki, er ein fárra sem hlotið hafa þann heiður að komast í hóp alþjóðlegs frumkvöðla á sviði kennslu sem nefnist Apple Distinguished Educator. Um er að ræða samfélag kennara um allan heim sem nýta sér Apple afurðir í skólastarfi á framúrskarandi hátt, kennarar sem eiga það sameiginlegt að sjá ný tækifæri og nýjar leiðir í kennslu með tækni.

Að sögn Álfhildar hófst Apple Distinguished Educator program fyrir 25 árum síðan en það er hugsað sem viðurkenning fyrir þá kennara sem Apple telur frumkvöðla í notkun tækni í kennslu. Segir hún þetta vera ákveðna viðurkenningu fyrir sig sem kennara og mikinn heiður. „Ég er reyndar líka einn af Apple Professional Learner Specialist á landinu, en Apple valdi fjóra kennara hérlendis til að sjá um endurmenntun annarra kennara hvað varðar tækni í skólastarfi fyrir þremur árum. Það er virkilega skemmtilegt að fá tækifæri til að hafa áhrif út fyrir skólastofuna sína með það að markmiði að breyta kennsluháttum svo skólar undirbúi nemendur sína sem best fyrir þeirra áskoranir í framtíðinni.“

Með því að verða líka Apple Distinguished Educator segist Álfhildur fá aðgang að samfélagi framúrskarandi kennara um allan heim til að læra af. „Þannig verð ég vonandi sjálf betri kennari og öðlast enn meiri þekkingu til að deila til samstarfsfólks míns, bæði í Árskóla og víðar um land.“

Tveir af þremur ADE  á Íslandi í Sagafirði
Álfhildur segir að gríðarlega margir um allan heim sæki um að verða Apple Distinguished Educators en hlutfallslega fáir eru valdir inn. „Það þarf því að sýna fram á að maður eigi erindi inn í þetta samfélag og hefur maður tvær mínútur til að segja frá því sem maður er að gera. Á síðustu árum hef ég haldið fjölmargar vinnustofur og fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis, skrifað blaðagreinar um forritun og tæknikennslu, þjálfað aðra kennara víða um land í breyttum kennsluháttum, haldið úti bloggi á www.alfhildur.com þar sem ég deili því sem ég geri í kennslustofunni ásamt því að vera virk að deila kennsluhugmyndum á Twitter svo eitthvað sé nefnt. Síðast en ekki síst hef ég fengið að kenna frábærum nemendum sem hafa ótrúlega þolinmæði fyrir öllu því sem mér dettur í hug að gera.“

Álfhildur segist einnig svo heppin að vera hluti af frábæru skólasamfélagi Árskóla þar sem mikil gróska er í breyttum kennsluháttum, tækjabúnaður góður og innleiðing á tækni í kennslu mjög langt komin á landsvísu. „Því ber að þakka góðri stjórnun, framúrskarandi kennsluráðgjafa og frábærum kennurum sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að nám nemenda þeirra verði sem best. Að vera hluti af slíku skólasamfélagi eru sannarlega mín forréttindi,“ segir Álfhildur. „Það er gaman að segja frá því að af þeim þremur Apple Distinguished Educators sem Apple hefur valið á Íslandi starfa nú tveir þeirra í skólasamfélagi Skagafjarðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir