Árin mín þrjú í Skagafirði :: Áskorendapenninn Rúnar Gíslason Skagafirði

Fyrir þremur árum flutti ég norður til að prófa fyrir mér lögreglustarf hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra. Sem sumarstarfsmaður árið 2017 dvaldi ég ýmist hjá ömmu og afa í Hofsós eða í íbúð Stínu frænku á Sauðárkróki og líkaði dvölin vel sem og starfið. Mér líkaði starfið í raun það vel að ég ílengdist á Sauðárkróki alveg fram til maí síðastliðinn þegar ég flutti heim aftur. 

Það var þó ekki tilviljun ein sem réði því að ég sótti í Skagafjörðinn fyrir rúmum þremur árum enda mitt móðurfólk úr Skagafirði. Það vakti því mikla lukku hjá móður minni þegar ég ákvað að fara í Skagafjörðinn, hvort sem það var að ég skyldi leita á hennar heimaslóðir eða fara af hennar heimili þori ég ekki að segja til um. Þó að mamma sé Skagfirðingur í húð og hár þá var ég ekki einungis að sækja hennar fortíð heldur var pabbi á svipuðum slóðum á mínum aldri fyrir einhverjum áratugum síðan þegar að hann flutti í Skagafjörðinn. Helsti munurinn á okkar búferlaflutningum er kannski sá er að þegar hann gekk inn í útibú Kaupfélags Skagfirðinga á Hofsósi þá hann fann sinn maka í afgreiðslunni til næstu þrjátíu ára. Ég sjálfur fór á öllum mögulegum tímum í sama útibú í þrjú ár samfleytt og eini sem afgreiddi mig var Árni Bjarka og það varð ekki til þess að ég færi á skeljarnar þó ágætur sé. 

Þó ég hafi ekki gengið út á þessum tíma sem ég var í Skagafirði þá nýtti ég tímann vel við ýmsa aðra dægrastyttingu eins og að spila við ömmu, þroska afa í pólitík, drekka brennivín með vinnufélögum og heimsækja háaldraða föðursystur mína og hennar kall. Ég held að ég hafi fengið góða innsýn inn í samfélag eins og Skagafjörð í mínu starfi í lögreglunni enda samstarfsfólkið fjölbreytt sem og verkefnin og starfið þannig uppsett að fátt fer fram hjá manni. Ég lærði samt miklu fleiri sögur úr útibúi KS á Hofsósi en nokkurn tímann lögreglunni sem þó vaktar samfélagið allan sólarhringinn. Það var oft sem að afi minn Pálmi og Símon heitinn ásamt fleiri góðum voru komnir á bragðið um það sem gerðist í firðinum langt á undan öllum öðrum.

Mér er sérstaklega minnistætt þegar ég flaug útaf í hálku fyrir tveimur árum í lögreglugallanum á leið til vinnu en þá hafði ég oltið smábíl sem ég var á og ég náði að húkka mér far með skólabílnum aftur upp á Hofsós þar sem ég var síðan sóttur. Um klukkustund síðar var ég mættur í kaffi til Árna og hafði ekki sagt sálu frá óhappinu þegar að Árni spurði mig atvikið. Þá hafði hann heyrt af því og líka útgáfuna hjá Símoni, sem hann kappkostaði við að dreifa, um að ég hefði hlaupið út á veg í lögreglu ,,uniforminu’’ og stoppað fyrsta bíl til að spyrja vegfarandann hvort hann hefði einhverjar upplýsingar um meint umferðaróhapp í umdæminu. 

Ég læt staðarnumið í bili og skora á stórvin minn og fyrrum samstarfsmann Pétur Björnsson til að taka við pennanum. Að endingu vil ég nota tækifærið og þakka samferðafólki mínu í lögreglunni og annars staðar fyrir frábæra viðkynningu og ég kem sannarlega aftur hvort sem þeim líkar betur eða verr!

Áður birst í 32. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir