Búrhvalstarfurinn við Blönduós reyndist 12,66 m langur

Sýni tekin úr búrhvalnum. Mynd: nnv.is.
Sýni tekin úr búrhvalnum. Mynd: nnv.is.

Náttúrustofa Norðurlands vestra gerði í gær rannsóknir á búrhvalnum sem rak á land við Blönduós. Á heimasíðu stofunnar segir að dýrið hafi reynst vera 12,66 m búrhvalstarfur og dánarorsök ókunn og var dýrið tiltölulega ferskt og án áverka. Bjarni Jónsson forstöðumaður Náttúrustofu NV ásamt Ágústi Bragasyni umsjónarmanni tæknideildar Blönduósbæjar, mældu dýrið og tóku vefjasýni til erfðafræðilegra rannsókna, sjúkdómagreininga og mögulega fleiri efnagreininga.

Ennfremur segir í færslu á nnv.is að gríðarstór kjálki með tönnum hafi einnig verið tekinn til rannsókna og naut Náttúrustofan aðstoðar Blönduósbæjar og slökkviliðs við þá aðgerð en sýnin munu svo verða greind hjá Hafrannsóknastofnun.

Þá kemur fram að búrhvalurinn verði fjarlægður, enda á óheppilegum stað við þéttbýli. „Búrhvalinn rak á fjörur við Blönduós nú í vikunni og varð hans fyrst vart í gærkveldi [þriðjudag]. Það var íbúi í gamla bænum, Stefán Haraldsson sem tók fyrstur eftir hvalnum, en hann blasir nánast við útum stofugluggann á heimilinu. Það eru ungir búrhvalstarfar sem helst halda sig við Íslandsstrendur, en tarfarnir geta náð 15-20 m lengd fullvaxnir og orðið 45-57 tonn að þyngd. Kýrnar sem halda sig á öðrum slóðum ásamt kálfum, verða 11-13 m langar og geta orðið 20 tonn að þyngd,“ segir á heimasíðu NNV.

Tengd frétt: Búrhval ber upp við Blönduós

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir