Byggingarnefnd Árskóla fer yfir tillögur

Á fundi byggingarnefndar Árskóla 15. júlí sl. var farið yfir þrjár tillögur sem þykja koma til greina um viðbyggingar við skólann. Var þetta þriðji fundur nefndarinnar.

Í fyrsta lagi var bygging D-álmu til norðurs og salar á austurhlið skoðuð en sú útfærsla er skv teikningum frá árinu 1997. Í öðru lagi var nýbygging sem teiknuð var árið 2009 til skoðunar og að lokum var farið yfir nýjar hugmyndir um byggingu ofan á C-álmu skólans og íþróttahúsið og salar á austurhlið.

Á fundinum var Jóni Erni sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs sveitarfélagsins, Herdísi Sæmundardóttur sviðsstjóra fræðslusviðs og Óskari G Björnssyni skólastjóra, falið að meta fyrirliggjandi tillögur með tilliti til þarfar fyrir fjölda fermetra, þarfa tónlistarskólans fyrir kennsluhúsnæði og aðra aðstöðu og þeim var einnig falið að leggja fram tillögu um röðum framkvæmda með tilliti til þess að hagræðing í rekstri náist sem allra fyrst í framkvæmdunum sem og með tilliti til faglegra sjónarmiða.

Bygginganefnd Árskóla var sett á laggirnar fyrr á árinu, en í henni eiga sæti Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðarráðs og byggðarráðsfulltrúarnir Bjarni Jónsson og Jón Magnússon.

Fleiri fréttir