Byrðuhlaup á 17. júní
Árlegt Byrðuhlaup UMF Hjalta verður haldið á sjálfan þjóðhátíðardaginn, 17. júní, á Hólum í Hjaltadal og keppa þátttakendur um titilinn Byrðuhlaupari ársins 2020. Lagt verður af stað klukkan 11:00 frá Grunnskólanum að Hólum og hlaupið eða gengið upp í Gvendarskál sem er sylla í fjallinu Hólabyrðu sem rís yfir Hólastað. Í tilkynningu frá UMF Hjalta segir að keppt verði í barnaflokki upp í þrettán ára aldur og í fullorðinsflokki, 14 ára og eldri. Boðið verður upp á hressingu í Gvendarskál. Frítt er í hlaupið og allir velkomnir.
Kl. 14 verður svo ýmislegt um að vera við Grunnskólann. Gengið verður fylktu liði í skrúðgöngu frá Háskólanum á Hólum að Grunnskólanum þar sem boðið verður upp á grillaðar pylsur og farið í hina ýmsu leiki eins og reiptog og pokahlaup. Þá mun verðlaunaafhending fyrir Byrðuhlaupið einnig fara fram við Grunnskólann.

