Dúxaði með 10 í meðaleinkunn á stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Þorri Þórarinsson, dúx Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Mynd:SHV
Þorri Þórarinsson, dúx Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Mynd:SHV

Þorri Þórarinsson, dúx Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, vann það einstaka afrek að hljóta meðaleinkunnina 10,0 á stúdentsprófi á Náttúrufræðibraut. Brautskráning skólans fór fram í dag, 5. júní, og voru gefin út 74 prófskírteini við hátíðlega athöf í íþróttahúsinu á Sauðárkróki.

Aðspurður segist Þorri nú alveg hafa þurft að hafa fyrir þessu. Hann lærði vel, fór vel yfir allt efnið en þurfti svo sem ekki að vaka á næturnar til að læra. Hann kemur frá bænum Keldudal í Skagafirði og í raun hafi það verið frí frá sveitastörfunum að komast í bækurnar. „Covid-tíminn hafði ekki mikil áhrif á mitt nám þar sem það færðist heim í tölvuna. Ég mætti í skólann á morgnana í tölvunni og lærði heima eftir það“ segir Þorri og þakkar foreldrum sínum fyrir að hafa kennt sér samviskusemi. Þorri er ekki eini námshesturinn í fjölskyldunni, hann segir hana fulla af duglegu fróðleiksfúsu fólki. Til gamans má nefna að Sunna systir hans var dúx skólans fyrir þremur árum.  

Fyrir þennan einstaka árangur hlaut Þorri eftirtaldar viðurkenningar:
Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu frá Danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu fyrir framúrskarandi alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúruvísindabrautar.
Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi.
Viðurkenningu frá Þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
Viðurkenningu frá Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði á stúdentsprófi.

Þorri stefnir á nám í Lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands í haust en fram að því ætlar hann að hjálpa til heima á bænum. Feykir óskar honum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og velfarnaðar í því sem hann mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir