Einnar nætur gaman - Beggó Pálma blæs lífi í glóðheitan smell

Tónlistarmaðurinn af Króknum Beggó Pálma hefur nú sett lag sitt Einnar nætur gaman á allar helstu streymisveitur en það lag naut gífurlegra vinsælda á Króknum á sínum tíma, og segist Breggó vera að reyna að blása lífi í lagið. „Ég flutti suður til að elta drauma mína í tónlist en hlutirnir gengu ekki alveg upp eins og vonað var eftir og áform mín söltuð. En núna er ég að gera eina tilraun enn til að koma mér á framfæri,“ segir Beggó.

„Mér finnst eins og Einnar nætur gaman hafi aldrei fengið þá athygli sem það á skilið. Ég hlóð því upp á allar helstu streymisveitur og er ég núna að berjast við að blása lífi í þetta Skagfirska One hit wonder en lagið fór aldrei í spilun í úrvarpi, hvað ég best veit. En núna hef ég sent á allar helstu útvarpsstöðvar og er í raun í „duga eða drepast“ herferð til að koma mér á framfæri. Platan mín er tilbúinn og hún kemur út núna í ár en ég er með áform um að taka upp fleiri lög en ég á heilan banka af lögum sem bara bíða eftir stúdíótíma.“

Beggó segist aðspurður sjá framtíðina fyrir sér eins og hver annar sem er að reyna að koma sér á framfæri í tónlist. „Markmiðið er að geta framfleytt sjálfum mér á tónlistinni og geta sungið að atvinnu. Ég er að fara að gefa út annað lag nú á næstu vikum og er með ágætar væntingar til þess. Það lag mun koma út núna fyrir páskana en svo í maí mun ég gefa út lag sem ég tel að gæti orðið heitur sumarsmellur,“ segir Beggó sem er með fleiri járn í eldinum.

„Ég er svo með áform um að taka upp heila 14 laga plötu sem ég vænti að komi út annað hvort 2021 eða 22. Um leið og rykið hefur fallið eftir sumarið mun ég eflaust setja fulla orku í upptöku á þeirri plötu. Ég veit í raun ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en veit hún verður full af tónlist.“

HÉR má heyra lagið Einnar nætur gaman á Spotify

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir